Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kort sem sýnir hraun og jarðmyndanir á Norðurgosbeltinu

Frá afhendingu jarðfræðikorts.
Frá afhendingu jarðfræðikorts.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók á dögunum við fyrsta eintaki jarðfræðikorts af Norðurgosbelti Íslands. Íslenskar orkurannsóknir gefur kortið út í samvinnu við Landsvirkjun.

Kortið, sem er í mælikvarðanum 1:100 000, nær yfir nyrðri hluta Norðurgosbeltis Íslands, eða svæðið frá Öxarfirði í norðri til Fremrináma í suðri.  Á kortinu eru allar helstu jarðmyndanir svæðisins sýndar. Þær elstu jarðlögin eru um 10 milljóna ára gamlar, og þær yngstu eru hraun frá Kröflueldum 1975-1984.

Alls eru á kortinu 61 nútímahraun sem skipt er í 7 aldursflokka með hjálp gjóskulaga. Misgengi, gjár, hverir, lindir og fleiri jarðfræðileg fyrirbæri eru einnig sýnd. Kortið byggist á fjölmörgum jarðfræðikortum í stærri mælikvarða sem unnin hafa verið fyrir verkkaupa ÍSOR og forvera þess, Orkustofnun, en einnig á yfirlitskortum í minni mælikvarða. Gögnin hafa verið endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við.

Á jarðfræðikortinu er einnig vísað í 27 áhugaverða staði, sem merktir eru með númerum, og er þeim lýst í stuttu máli og myndum á bakhlið þess og á heimasíðu ÍSOR www.isor.is.

Það var Kristján Sæmundsson jarðfræðingur og einn af höfundum kortsins sem afhenti ráðherra fyrsta eintakið af kortinu.

Jarðfræðikortið afhent

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta