Slökkviliðsmenn í bleiku vegna Mottumars
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, var í dag viðstödd þegar Mottumars-átakinu var hleypt af stokkunum í húsnæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) í Skógarhlíð. Fjöldi slökkviliðsmanna íklæddir bleikum stuttermabolum voru einnig á staðnum, en rannsóknir sýna að slökkviliðsmenn eru í meiri áhættu en aðrir á að fá krabbamein.
Krabbameinsfélag Íslands stendur fyrir átakinu og í ár fékk það SHS og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamana til liðs við sig. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn um allt land ætla að klæðast bleikum bolum í starfi á meðan átakið stendur yfir til að vekja athygli á málstaðnum en breyta þurfti fatareglum slökkviliðsins tímabundið til að það gæti gengið eftir.
Með þátttöku í átakinu vilja slökkviliðsmenn vekja athygli á því að þeir eru í áhættuhópi við að fá krabbamein vegna reykköfunar. Kom fram í máli Birgis Finnssonar, aðstoðarslökkviliðsstjóra SHS, að vegna þessa hafi forvarnir verið efldar auk þess sem vinnubrögðum og verkferlum hefur verið breytt í því skyni að draga úr áhættunni.
Málefni brunavarna og slökkviliðs heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið en það er Mannvirkjastofnun sem fer með yfirumsjón með slökkvistarfi sveitarfélaga.