Ísland gerist aðili að samningi um votlendisfarfugla
Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að Ísland gerist aðili að alþjóðlegum samningi um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA). Samningurinn veður m.a. á um aðgerðir til verndunar votlendisfugla á viðkomustöðum þeirra.
Samningurinn nær til fjölmargra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi og er talið að virk aðild Íslands að honum styrki vernd þeirra en lögð er áhersla á verndunaraðgerðir á viðkomustöðum farfugla. Samningurinn hefur náð sýnilegum árangri að tryggja vernd tegunda sem hafa verið í niðursveiflu og jafnvel útrýmingarhættu, t.d. vegna óheftra veiða eða eyðileggingar á mikilvægum varp- og áningarstöðum tegundanna. Virk þátttaka Íslands í AEWA hefur því skýran ávinning fyrir náttúruvernd hér á landi.
Það var utanríkisráðherra sem kynnti málið í ríkisstjórn, enda um alþjóðlegan samning að ræða en umhverfis- og auðlindaráðuneytið verður ábyrgt fyrir aðild Íslands að samningnum. Ábyrgð og vinna við framkvæmd samningsins verður að mestu á höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands.