Samstarf stjórnvalda og Iceland Geothermal klasasamstarfsins
Við upphaf ráðstefnunnar Iceland Geothermal 2013 í dag undirrituðu Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og Dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits og varastjórnarformaður Iceland geothermal klasasamstarfsins, samkomulag um aðkomu ríkisins að nokkrum af grunnverkefnum klasasamstarfsins. Heildarfjárframlag stjórnvalda nemur 6,8 milljónum króna.
Iceland Geothermal er fyrirtækjadrifið samstarf innan íslenska jarðvarmaklasans sem hefur þann tilgang að efla samkeppnishæfni innan klasans með virðisauka greinarinnar og bætta nýtingu auðlindarinnar að leiðarljósi. 95% fjármögnunar starfseminnar kemur frá fyrirtækjum innan greinarinnar.
Klasahugmyndafræðin byggir m.a. á því að efla samræður milli stjórnvalda og atvinnulífs og er markmiðið með samstarfinu að efla jarðvarmageirann enn frekar til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki. Þá er uppbygging Iceland Geothermal klasasamstarfsins þegar orðin fyrirmynd fyrir aðrar atvinnugreinar, sem geta styrkt sig með sambærilegum hætti.