Hoppa yfir valmynd
7. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Framtíðarþing um farsæla öldrun

Framtíðarþing um farsæla öldrun. Að þingin stóðu: Öldrunarráð Íslands, Landsamband eldri borgara, Öldrunarfræðafélag Íslands, Velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga, Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu og Iðjuþjálfafélag Íslands.

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Góðir gestir.

Það gladdi mig virkilega þegar ég fékk boð Öldrunarráðs Íslands um að ávarpa Framtíðarþing um farsæla öldrun. Hér er sleginn nýr og ferskur tónn sem hlýtur að fanga fólk og vekja áhuga. Þjóðfundaformið þekkjum við reyndar – á það er komin töluverð reynsla og það virðist þjóna vel því markmiði að draga fram ólík sjónarmið, nýjar hugmyndir, vonir fólks og væntingar. Það sem mér finnst svo áhugavert varðandi þingið hér í dag er hvernig viðfangsefninu er stillt upp með jákvæða nálgun þess að leiðarljósi. 

Samfélagsumræða hér á landi hefur lengi verið sýkt af neikvæðni þar sem fólk keppist við að draga upp sem dekksta mynd af því sem er til umfjöllunar, einblína á dökku hliðarnar, horfa fram hjá því sem gott er. Þetta er umræða sem rífur niður í stað þess að byggja upp og er síst það sem samfélagið þarf á að halda. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, enda ekki viðeigandi hér. Gestir á þessu þingi hafa annað í huga þar sem yfirlýst markmið eru að vekja jákvæða athygli á öldruðum og stöðu þeirra og koma af stað heilbrigðri og skynsamlegri umræðu um þessa kynslóð, væntingar og viðhorf.

Nýlokið er Evrópuári aldraðra þar sem áhersla á virkni aldraðra var í forgrunni. Árið 1999 var líka Evrópuár aldraðra þar sem áhersla var lögð á það viðhorf að bæta lífi við árin. Þetta fer vel saman. Það er virknin sem heldur okkur gangandi, gefur lífinu inntak og eykur virði þess, jafnt fyrir okkur sjálf og fyrir samfélagið allt. 

Aldurssamsetning þjóða er að breytast og hlutfallslega fjölgar þeim mest sem eldri eru. Þessu er iðulega stillt upp sem vandamáli. Þá er sleppt þeirri staðreynd að samhliða fer langlífi vaxandi og heilsufar batnandi.

Í atvinnurekstri er mannauðsmál þáttur sem fær sívaxandi vægi. Við ættum einnig að leggja áherslu á mannauð þjóðarinnar og leggja við hann meiri rækt en nú er gert. Við eigum að meta aldur fólks og þá reynslu og visku sem fólk safnar með árunum. Allir vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins og þá er fráleitt ef samfélagið slær hendinni á móti því af því að fólk er komið á einhvern tiltekinn aldur.

Sem betur fer eru augu okkar smám saman að opnast fyrir því að samfélag sem stendur undir því nafni á að vera eitt samfélag fyrir alla. Þar sem fólk hefur réttindi og skyldur og hver og einn tekur virkan þátt eftir getu sinni. Þessi hugsun birtist meðal annars í viðhorfum til örorku þar sem áherslur eru nú að breytast til betri vegar. Svokallað örorkumat hefur lengi verið við lýði. Ég verð að segja að orðið eitt veldur manni óþægindum, hvað þá inntakið þar sem örorkumatið hefur þann tilgang að skilgreina og skrá skerta starfsgetu fólks og meta til bóta. Þessi skorthugsun er skemmandi og niðurdrepandi. Blessunarlega er nú unnið að því að snúa þessu við með jákvæðri nálgun sem felst í því að einbeita sér að því hvað fólk getur, að meta starfsgetuna og hvernig einstaklingurinn getur fært sér getu sína í nyt, sjálfum sér og samfélaginu til góðs.

Þeir sem mestir snillingar eru í neikvæðri umræðu og niðurrifi halda því fram að önnur og jákvæðari nálgun feli í sér afneitun á vandamálum og meinta strútshegðun. Þessu hafna ég og þessu hefur verið hafnað þinginu sem hér er að hefjast. Vandamál er vont orð, köllum það viðfangsefni og nálgumst svo viðfangsefnin með jákvæðum huga. Þannig er líklegast að við finnum nýjar leiðir og lausnir sem fengur er af.

Góðir gestir.

Ég óska ykkur gæfu og gengis í störfum ykkar og er sannfærður um að með þessu þingi verði tekinn upp þráður sem verður spunninn áfram og færir okkur eitthvað nýtt sem mun gagnast vel inn í bjartari framtíð og betra samfélag – fyrir alla.

- - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta