Tímabundið átak í stjórnsýslu- og búsetumálum hælisleitenda
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu innanríkisráðherra um að efna nú þegar til tímabundins átaks til að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu og aðbúnað hælisleitenda. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri sem hefur yfirumsjón með átakinu og starfsmönnum verður fjölgað tímabundið hjá innanríkisráðuneytinu og Útlendingastofnun. Þá verður gengið til samninga við Rauða kross Íslands um aðkomu að búsetumálum og þjónustu við hælisleitendur.
Sérstök verkefnisstjórn innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar verður sett á laggirnar og mun hún starfa í nánu samráði við Lögregluna á Suðurnesjum, Ríkislögreglustjóra, Reykjanesbæ, Rauða krossinn og eftir atvikum aðra aðila.
Gripið er til þessara aðgerða vegna bráðavanda sem nú er uppi í málaflokknum en það sem af er ári hafa Útlendingastofnun borist yfir 50 umsóknir um hæli.