Hoppa yfir valmynd
20. mars 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 2. mars 2013

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 2. tölublað 15. árgangs, er komið út á vef ráðuneytisins.

Málþing um siðareglur


Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni sem var skipuð skv. lögum nr. 86/2010 er meðal annars ætlað að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum. Það hefur samhæfingarnefndin m.a. gert með því að semja siðareglur fyrir ráðherra sem tóku gildi 22. mars 2011 og siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins en þær voru staðfestar af forsætisráðherra þann 3. maí 2012. Nú er verið að leggja lokahönd á almennar siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn en megin tilgangur þeirra er að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni. Samhæfingarnefndinni er einnig ætlað að beita sér fyrir fræðslu og liður í því er málþingið Siðareglur í opinberri þjónustu sem haldið verður á Hótel Natura föstudaginn 22. mars nk., kl. 13 – 17.

Á málþinginu verður fjallað um heilindi og siðferðileg viðmið í opinberri þjónustu út frá ýmsum sjónarhornum. Jón Ólafsson, formaður samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni, mun m.a. fjalla um þann mun sem er á siðareglum og reglum sem festar eru í lög. Þá verður athyglinni beint að tilteknum sviðum, eins og ráðningum, og mun Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent halda erindi sem hún nefnir Ráðningamál hjá hinu opinbera – hvernig tryggjum við faglegt og gagnsætt ferli? Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu fjallar um samskipti stjórnmálamanna og embættismanna, Þórir Óskarsson hjá Ríkisendurskoðun um endurskoðun og siðferði og Róbert R. Spanó, settur umboðsmaður Alþingis, eftirlit með siðareglum. Sérstakur gestur málþingsins er János Bertók, yfirmaður deildar sem fer með málefni opinberrar stjórnsýslu hjá OECD. Bertók hefur leitt starf  er snertir heilindi í opinberri þjónustu hjá OECD frá árinu 1997 og er höfundur fjölmargra skýrslna og rannsóknarrita þar um. Meðal bóka sem gefnar hafa verið út eftir hann eru Public sector integrity: a framwork for assesment, Public Sector Transparency and Accountability: Making it happen og Managing Conflict of Interest in the Public Service.

Málþingið er ætlað starfsfólki stjórnsýslunnar og öðru áhugafólki um heilindi í opinberum störfum. Þátttökugjald er kr. 2.500 og fer skráning fram á www.forsaetisraduneyti.is/verkefni/stjornsysluskoli.

Framtíð opinberrar þjónustu


Rolf Alter, forstöðumaður opinberrar stjórnsýslu hjá OECD kom til Íslands 4. mars sl. og hélt fyrirlestur á hádegisverðarfundi sem haldinn var á Grand hóteli. Félag forstöðumanna stóð að fyrirlestrinum í samstarfi við forsætisráðuneytið og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ.

Hann hefur verið forstöðumaður opinberrar stjórnsýslu hjá OECD frá júli 2009. Hann hefur starfað  á ýmsum sviðum stofnunarinnar frá 1991, en áður en hann tók við núverandi starfi var hann æðsti yfirmaður á skrifstofu framkvæmdastjóra OECD. Rolf Alter er hagfræðingur að mennt.

Rolf fjallaði um alþjóðlega strauma og lærdóma sem OECD hefur dregið af nýlegum úttektum stofnunarinnar um opinbera starfsemi í nokkrum aðildarríkjum OECD. Hann sagði miklar væntingar vera gerðar til stjórnvalda um að þau komi þjóðum sínum úr kreppunni, stuðli að samkeppnishæfni, skapi störf og nái jöfnuði í ríkisfjármálum. Stjórnvöld glími við miklar áskoranir þar sem saman fari takmarkaðar auðlindir en auknar kröfur og minna traust á stjórnvöldum. Til að mæta þessu hafi stofnunin lagt fram ýmsar hugmyndir að umbótum og betri vinnubrögðum í opinberri starfsemi sem eru til þess fallnar að auka ábyrgð, traust og gegnsæi hjá hinu opinbera. Stofnanir þurfi að verða öflugri til að geta tekist á við langtímaáskoranir og það þurfi að auka trú almennings á stjórnvöldum með því að auka gegnsæi og aðkomu fólks að ákvörðunum og innleiðingu opinberrar stefnumörkunar. Stjórnsýslan þurfi að verða samhæfðari, skilvirkari og sveigjanlegri til þess að geta tekist á við áskoranir framtíðarinnar.

Hann sagði Ísland vera að glíma við svipaðar áskoranir og mörg önnur lönd. Efnahagshorfur hafi batnað en að enn sé mjög takmarkað svigrúm í ríkisfjármálum. Traust á stjórnvöldum hafi hrunið og að það verði að endurvekja. Það þurfi að styrkja stjórnsýsluna, m.a. með bættri mannauðsstjórnun og fjárfestingu í vinnuaflinu en einnig með því að vinna betur með sveitarstjórnarstiginu. Hann nefndi að meðalaldur starfsmanna hjá hinu opinbera fari hækkandi sem þýði að visst þekkingartap verði en hins vegar sé líka tækifæri fólgið í því þar sem þá sé hægt að færa mannauð í önnur mikilvægari verkefni.

Einnig talaði Rolf um mikilvægi þess að styrkja langtímastefnumótun og tryggja að stefnum sé fylgt eftir. Hér, líkt og annars staðar, yrði til bóta að opna fyrir almenningi ákvörðunartökuferli við stefnumótun og lagasetningu, bæði til að auka gegnsæi og traust en einnig til að fá þannig nýjar hugmyndir að lausnum. Nýsköpun og þróun sé alltaf mikilvæg þó svo að núna sé kannski lítið svigrúm til að prófa sig áfram.

Að lokum benti Rolf á að ýmis konar aðstoð væri í boði hjá OECD og hvatti Íslendinga til að notfæra sér það. Einnig væri gagnlegt  að fara að ráðleggingum sérfræðinga stofnunarinnar. Á Íslandi  hafi t.d. lítið verið gert með ráðleggingar sem birtust í skýrslunni „Going for Growth.“

Á eftir erindi Rolf Alter voru pallborðsumræður en í pallborði sátu þau Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Ómar H. Kristmundsson, prófessor í stjórnsýslufræðum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana og lögðu fram sínar hugleiðingar um efnið.

Nýtt efni á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins


Ráðuneytið vill vekja athygli á umfjöllun um endurmenntun og framhaldsnám á síðunni spurt og svarað. Efnið hefur nýlega verið uppfært .

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta