Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þjónusta aukin á Sólvangi og rekstrarstaðan styrkt

Fréttatilkynning frá velferðarráðuneyti og Sólvangi í Hafnarfirði

Þjónusta við aldraða í Hafnarfirði verður aukin með fjölgun hjúkrunarrýma og nýjum dagvistarrýmum á hjúkrunarheimilinu Sólvangi. Þetta er liður í aðgerðum til að bæta rekstrarstöðu heimilisins. Jafnframt mun heimilið afla aukinna sértekna og hagrætt verður í rekstri.

Fulltrúar velferðarráðuneytisins og stjórnendur Sólvangs í Hafnarfirði hafa að undanförnu unnið að gerð áætlunar til að snúa við miklum og viðvarandi halla sem verið hefur á rekstri hjúkrunarheimilisins. Niðurstöður þeirrar hafa verið kynntar fyrir starfsmönnum Sólvangs og voru kynntar fulltrúum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag. 

Sólvangur fær heimild fyrir þremur nýjum hjúkrunarrýmum, tvö þeirra ætluð fyrir hvíldarinnlagnir og eitt til varanlegrar dvalar. Jafnframt verður opnuð dagdvöl fyrir átta aldraðra einstaklinga. Þá mun heimilið taka að sér matsölu til aldraðra í þjónustumiðstöðinni Höfn og afla þannig sértekna. Sýnt hefur verið fram á að húsnæðiskostnaður Sólvangs hefur verið vanmetinn og mun velferðarráðuneytið taka tillit til þess með viðbótarfjárheimildum. Starfsmannahald á Sólvangi hefur verið endurmetið. Niðurstöður sýna að mönnun á heimilinu hefur verið töluvert yfir meðaltali mönnunar á sambærilegum stofnunum og í því ljósi hefur stöðugildum verið fækkað um fjögur og hálft.

Nýtt hjúkrunarheimili á Völlunum

Velferðarráðuneytið og Hafnarfjarðarkaupstaður gerðu með sér samkomulag árið 2010 um byggingu nýs 60 rýma hjúkrunarheimilis í  Skarðshlíð samkvæmt svokallaðri leiguleið og er því ætlað að leysa af hólmi reksturinn á Sólvangi. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að heimilið yrði tekið í notkun á þessu ári en ljóst er að þau áform ganga ekki eftir. Undirbúningur vegna fyrirhugaðra framkvæmda stendur yfir af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Velferðarráðuneytið og bæjaryfirvöld eru einhuga um mikilvægi þess að grípa til ráðstafana á Sólvangi til að rétta af rekstur heimilisins og auka þjónustu við aldraða í bæjarfélaginu en leggja áherslu á að þetta eru tímabundnar ráðstafanir þar til nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og velferðarráðuneytisins í dag kom fram ósk bæjaryfirvalda um að við uppbyggingu í Skarðshlíð verði byggt stærra hjúkrunarheimili en áformað er samkvæmt gildandi áætlun. Ráðuneytið telur góð rök fyrir því að endurmeta fyrirhugaðar framkvæmdir  með mögulega fjölgun rýma að leiðarljósi til að efla þjónustu við aldraða á svæðinu.

Velferðarráðuneytið og Sólvangur,
5. apríl 2013

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta