Tillögur nefndar um svæðisbundna útrýmingu minks
Umsjónarnefnd um átaksverkefni í minkaveiðum hefur skilað lokaniðurstöðum sínum til umhverfis- og auðlindaráðherra. Nefndin telur að verkefnið hafi sýnt fram á að hægt sé að ná góðum árangri við að fækka mink og nær útrýma honum svæðisbundið með auknu veiðiálagi. Hins vegar sé mat vísindamanna það að ekki sé hægt að draga víðtæka lærdóma af verkefninu um hvort æskilegt sé að ráðast í útrýmingarátak á landsvísu, eða hvað það sé líklegt að kosta. Nefndin telur rétt að skoða hvort ráðast eigi í fleiri svæðisbundin átaksverkefni og reyna að halda svæðunum minklausum eftir föngum á eftir og skoða svo að nýju möguleika á landsátaki til útrýmingar þegar meiri reynsla er komin á svæðisbundna útrýmingu.
Veiðiátakið stóð á árunum 2007-2009, en var framlengt um eitt ár, til 2010. Verkefnið náði til tveggja svæða, Eyjafjarðar og Snæfellsness. Í Eyjafirði tókst að fækka mink mikið og hratt og nær því að útrýma honum, en alltaf er eitthvað innstreymi af mink af öðrum svæðum. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur nú tekið að sér að viðhalda árangri átaksins, þannig að mink sé haldið í lágmarki á svæðinu. Hægar gekk að fækka mink á Snæfellsnesi, en þó tókst það að verulegu leyti og munaði nokkuð þar um síðasta árið, sem bætt var við átakið. Bráðabirgðaniðurstöður voru kynntar á ráðstefnu árið 2011 og hafa verið kynntar á fundum með samráðsnefnd veiðiátaksins, sem í áttu sæti vísindamenn og fulltrúar hagsmunasamtaka, sem styrktu átakið. Nefndin hefur síðan látið gera nánari samantekt á niðurstöðum og vísindalegt mat á árangri átaksins og möguleika á landsútrýmingu og gert tillögur um framhald málsins á grundvelli þess og skilað til ráðherra.
Nefndin telur að ekki sé ráðlegt að leggja í átak til útrýmingar á landsvísu nú, heldur þurfi að byggja á meiri reynslu og rannsóknum. Það er að auki mat margra að óráðlegt sé að ráðast í dýra útrýmingarherferð á landsvísu á meðan minkarækt sé stunduð á Íslandi, þar sem alltaf sé hætta á sleppingum, þótt öryggi minkabúa hafi stóraukist. Hins vegar telur nefndin heldur ekki rétt að slá hugmyndir um landsútrýmingu minks út af borðinu. Rétt sé að skoða lærdóma af átaksverkefninu og öðrum dæmum þar sem vel hefur tekist til við að fækka minki og e.t.v. að ráðast í áframhaldandi svæðisbundin útrýmingarverkefni og stækka smám saman svæði þar sem mink hefur verið að mestu eða öllu útrýmt. Þessi leið kalli þó á aukin framlög til minkaveiða og tengdra rannsókna og góða samvinnu helstu aðila sem vinna að veiðum og rannsóknum á mink, auk annarra hagsmunaaðila.
Nýhafin er endurskoðun á fyrirkomulagi veiða á ref og mink. Umsjónarnefnd svæðisátaksins gerir ekki almennar tillögur um fyrirkomulag veiða, en tillögur hennar um mögulegt áframhald á svæðisbundnum átaksverkefnum gætu nýst í því starfi.