Ný stefna um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra undirrituðu í dag stefnu til fjögurra ára um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.
Í stefnunni er fjallað um hvernig samþætta má umhverfissjónarmið góðum innkaupaháttum hjá ríkinu og hvernig opinberir aðilar geta gert rekstur sinn grænni.
Stefna um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur tekur við af fyrri stefnu um vistvæn innkaup frá árinu 2009 og eldri umhverfisstefnu í ríkisrekstri frá árinu 1998.
Umfang innkaupa ríkisins er um 150 milljarðar króna á ári. Með kaupmætti sínum og eftirspurn getur ríkið haft gríðarleg áhrif á þróun á markaði; á vöru- og þjónustuframboð og verið drifkraftur nýsköpunar. Í tillögum Alþingis um eflingu græna hagkerfisins er lögð áhersla á að ríkið verði fyrirmynd og skapi aðstæður fyrir grænt hagkerfi, m.a. í gegnum vistvæn innkaup og markvisst umhverfisstarf.
Áhersla ríkis og sveitarfélaga á vistvæn innkaup hefur þegar haft veruleg áhrif á markaðinn. Dæmi um það er fjölgun Svansvottaðra fyrirtækja úr 4 í 25 frá samþykkt síðustu stefnu, sem telja má beina afleiðingu af umhverfiskröfum í útboðum opinberra aðila.
Þá gefur könnun á stöðu vistvænna innkaupa og vistvæns ríkisreksturs sem gerð var hjá ríkisstofnunum í febrúar 2013 til kynna að um þriðjungur stofnana hugi að vistvænni rekstri.
Stefna um vistvæn innkaup fyrir árin 2013-2016 er afrakstur endurskoðunar stýrihóps um vistvæn innkaup á fyrri stefnu og nýrri aðgerðaráætlun.
Helstu markmið nýrrar stefnu:
» Þeir sem sjá um útboðsgerð hafi þekkingu á vistvænum innkaupum og færni til að beita þar til gerðum verkfærum, s.s. umhverfisskilyrðum og útreikningum á líftímakostnaði.
» Forstöðumenn og innkaupafólk stofnana þekki til og noti almenn verkfæri vistvænna innkaupa.
» Birgjar ríkisins fái upplýsingar um vistvænar kröfur sem gerðar eru í innkaupum, með góðum fyrirvara. Ríkið og birgjar eigi í árangursríku samstarfi um þróun vistvænna innkaupa með skapandi lausnum.
» Rammasamningar ríkisins uppfylli a.m.k. lágmarksskilyrði grunnviðmiða í umhverfisskilyrðum þeirra vöru- og þjónustuflokka þar sem slík skilyrði hafa verið útbúin.
» Hlutfall vistvænna útboða, þ.e. útboða með umhverfisskilyrðum, útboða sem taka mið af líftímakostnaði eða útboða sem á annan hátt eru til þess fallin að minnka umhverfisáhrif, verði a.m.k. 50% árið 2016.
» Móta tillögu um fyrirkomulag um endurgreiðslu til stofnana ríkisins á hluta innkaupsverðs vegna kaupa á umhverfismerktum vörum.
» Starfsfólk og stjórnendur stofnana hafi þekkingu á grænum rekstri og kunnáttu í að beita hjálpartækjum til að lágmarka umhverfisáhrif með einföldum og skilvirkum aðferðum sem eru að mestu sameiginlegar og eiga almennt við um allar stofnanir.
» Stofnanir noti grænt bókhald eða sjálfbærnivísa til að meta frammistöðu í umhverfismálum, upplýsingum sé safnað og miðlað.
Í stefnunni er lögð áhersla á fræðslu og innleiðingu í góðu samstarfi við hagsmunaaðila, til að tryggja sem bestan árangur við að draga úr umhverfisáhrifum um leið og stuðlað er að aukinni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem bjóða vistvænni valkosti. Þá er gert ráð fyrir að horft verði m.a. til frammistöðu stofnana í vistvænum innkaupum og grænum rekstri við mat á fyrirmyndarstofnun ársins.
Stefna ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur fyrir árin 2013-2016