Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárhagsupplýsingar ríkisins gerðar aðgengilegar almenningi

Margrét Hauksdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Finnur Pálmi Magnússon og Gunnar H.Hall
Margrét Hauksdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Finnur Pálmi Magnússon og Gunnar H.Hall

Fyrstu skrefin hafa verið stigin í átt að því að gera upplýsingar úr bókhaldi ríkisins aðgengilegar almenningi. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa ákveðið að gögn frá Fjársýslu ríkisins sem fram til þess hafa komið fyrir sjónir fárra verði hér eftir birt og uppfærð á nýju vefsvæði til framtíðar fyrir opin gögn, gogn.island.is.

Mikilvægur grunnur hefur verið lagður að frekari birtingu fjárhagsupplýsinga ríkisins, þar sem hannaður hefur verið rammi sem gerir notkun og endurnýtingu gagnanna mögulega, án sérstakra skilyrða. 

gogn.island.is

„Markmið þessa verkefnis er  stuðla að því að almenningur hafi greiðan aðgang að fjárhagsupplýsingum ríkisins.  Gegnsæi er lykilatriði í þessari vinnu og samfara því aukið aðhald og traust í samfélaginu,” segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Gögnin sem ákveðið hefur verið að birta nú snerta árshluta- og mánaðaruppgjör ríkissjóðs. Upplýsingarnar verða ítarlegri og aðgengilegri en hingað til. Þær geta nýst  almenningi, fyrirtækjum í upplýsingatækni, sem og fjölmiðlum.

Samfara birtingu gagnanna er birt skýrsla starfshóps forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sem unnið hefur undanfarna mánuði að því að birta með aðgengilegum hætti fjárhagsupplýsingar ríkisins.  Við skipan og í starfi hópsins hefur verið lögð áhersla á að leiða saman þekkingu úr stjórnsýslunni, grasrótinni, fyrirtækjum í upplýsingageira og sérfræðingum.

Í skýrslu starfshópsins eru meðal annars lögð til næstu skref í birtingu fjárhagsupplýsinga.

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti verkefnið á blaðamannafundi í dag. Þá fór Finnur Pálmi Magnússon, formaður starfshóps um opin gögn og birtingu fjárhagsupplýsinga ríkisins yfir vinnu hópsins. Auk þess sátu Gunnar H. Hall, forstjóri Fjársýslu ríkisins og Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár fundinn.

Margrét Hauksdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Finnur Pálmi Magnússon og Gunnar H.Hall

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta