Mikil tækifæri í viðskiptum við Kína
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína, eru sammála um að mikil tækifæri til nýrra samstarfsverkefna milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja muni opnast með fríverslunarsamningnum, sem þeir tveir munu undirrita fyrir hönd þjóða sinna síðar í dag að viðstöddum forsætisráðherrum þjóðanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Li Keqiang.
Þetta kom fram á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með Gao Hucheng utanríkisviðskiptaráðherra Kína í Peking í morgun.
Með samningnum falla niður tollar á nokkrum af mikilvægustu útflutningsafurðum Íslendinga inn á markað í Kína. Í dag og á morgun verður einnig skrifað undir fjölda samstarfssamninga milli íslenskra fyrirtækja og kínverskra aðila.
Á fundinum vakti Össur máls á fjölmörgum samstarfsverkefnum. Meðal annars hvatti hann utanríkisráðherra Kínverja til samstarfs um olíuverkefni á Drekasvæðinu en íslenskt fyrirtæki sem stofnað hefur verið í þeim tilgangi hefur óskað eftir samvinnu við kínverska fyrirtækið Sinopec um það.
Kínverski ráðherrann fagnaði sömuleiðis þeim tækifærum sem geti skapast í samskiptum ríkjanna við auknar siglingar yfir norðurpólinn en Kínverjar og Íslendingar hafa verið sammála um að Miðleiðin svokallaða sé hentugasta skipaleiðin milli Asíu og Evrópu í framtíðinni. Umskipunarhöfn á Íslandi gæti þá orðið ein af mikilvægum áfangastöðum á þeirri leið. Viðskiptaráðherra Kína hvatti til þess að íslensk og kínversk stjórnvöld þróuðu það samstarf áfram.
Össur og Gao Hucheng ræddu áform Kínverja um áframhaldandi jarðhitavæðingu Kínverja í samvinnu við íslensk fyrirtæki og íslenska sérfræðinga, en stærsta hitaveita í heimi er nú í Kína, byggð á grundvelli íslenskrar sérþekkingar. Á nýafstöðnu flokksþingi samþykkti kinverska ríkisstjórnin sérstakt átak í jarðhitanýtingu, en áætlað er að 400 borgir gætu sett upp jarðhitaveitur að íslenskum hætti. Í tengslum við fríverslunarsamninginn verður undirritaður samningur um frekari fjármögnun á næstu stórverkefnum í samstarfi Íslendinga og Kínverja á þessu sviði.
Einnig kom fram af hálfu kínverska ráðherrans að Kínverjar væru mjög jákvæðir gagnvart samstarfi við Íslendinga um nýtingu jarðhita í öðrum löndum, til dæmis í Afríku. Þar gætu skapast fjölmörg störf fyrir íslenska sérfræðinga á ýmsum sviðum við kortlagningu linda og byggingu jarðorkuvera.
Ráðherrarnir ræddu jafnframt framvindu samstarfs þjóðanna á sviði orkusparandi aðgerða, en samningar sem gerðir verða í tengslum við fríverslunarsamninginn varða meðal annars stórfellt samstarf Marorku, sem framleiðir orkusparandi tækni fyrir skip, við stóra aðila sem framleiða vélar í kínverska kaupskipaflotann.
Kínverski ráðherrann sagðist myndu hvetja kínversk fyrirtæki til að taka þátt í uppbyggingarverkefnum á Íslandi, svo sem um olíuvinnslu, einstaka framkvæmdir og kísilflöguverksmiðju á Grundartanga.