Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Ný stefna ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013-2016

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag nýja stefnu um upplýsingasamfélagið 2013 til 2016. Kjarnahópur fulltrúa allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að mótun stefnunnar og tillagna um aðgerðir og í því skyni átt víðtækt samráð á fundum og á netinu.

Vöxtur í krafti netsins – byggjum, tengjum og tökum þátt er yfirskrift stefnunnar sem kemur í beinu framhaldi af stefnunni Netríkið Ísland 2008 til 2012. Fjallað er um rafræna stjórnsýslu, framboð og notkun á opinberri þjónustu á netinu, samstarf ríkis og sveitarfélaga og síðan eru sett fram mælanleg markmið og fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög starfi áfram saman og hrindi stefnunni í framkvæmd.

,,Þessi nýja stefna er framtíðarsýn í upplýsingatækni fyrir íslenskt samfélag. Hér er lögð til metnaðarfull  uppbygging á innviðum og vandaðri þjónustu. Unnið hefur verið mikið og gott starf og samráð verið mikið og gott við sveitarfélög enda lagður hér grundvöllur fyrir ný skref í rafrænu lýðræði og rafrænni  auðkenningu. Ég tel að á því sviði verði stærstu skrefin stigin á næstu misserum,” segir Ögmundur Jónasson um hina nýju stefnu.

Stefnan um upplýsingasamfélagið var unnin í stefnumótunarferli sem nær yfir alllangt tímabil. Stefnan er samofin úr mörgum þáttum og m.a. mótuð í samráðsferli sem innanríkisráðherra beitti sér fyrir í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í niðurstöðum þeirrar vinnu var rík áhersla lögð á að líta bæri á rafræna þjónustu og auðkenni sem mikilvægan hluta af innviðum upplýsingasamfélagsins.

Þá má nefna að meðal verkefna sem ráðist var í þessu samstarfi var þróun rafrænnar auðkenningar, svokallaðs Íslykils sem þróaður var af Þjóðskrá Íslands og tekinn formlega í notkun 12. apríl síðastliðinn. Einnig var unnið að eflingu rafræns lýðræðis í sveitarfélögum og hafa þegar verið samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum sem undirbúa jarðveginn fyrir rafrænar íbúakosningar og undirskriftasafnanir á Ísland.is. Með þessum verkefnum er lagður grunnur að margvíslegri rafrænni þjónustu sem getur stuðst við og nýtt auðkenningarþjónustuna   Íslykill á Ísland.is.

Í kjarnahópi sem innanríkisráðherra síðan skipaði um mótun stefnunnar sátu fulltrúar allra ráðuneyta ásamt tveimur fulltrúum sveitarfélaga og hefur hópurinn átt gott samráð um inntak stefnunnar bæði með því að halda fjölsótta vinnustofu og einnig með opnu samráði á netinu.

Staða Íslands í málaflokknum er sú að almenningur er tilbúinn til að nýta sér þá opinberu þjónustu sem í boði er á netinu, góðir fjarskiptainnviðir eru fyrir hendi, almenningur á nauðsynleg tæki og er tengdur við netið. En opinberir aðilar nýta hins vegar ekki nægjanlega vel þau tækifæri sem felast í þessari stöðu. Þau tækifæri felast í því að koma á aukinni sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu á netinu og auka þannig skilvirkni opinberrar þjónustu. Þau felast einnig í vannýttum möguleikum sem þessi staða felur í sér til að styrkja lýðræðið, kalla eftir og taka tillit til skoðana og ábendinga almennings um hin margvíslegu mál sem eru til umfjöllunar hjá hinu opinbera, allt frá ábendingum um umbætur í þjónustu til þess að taka þátt í mótun opinberrar stefnu eða nýrra laga.

Stefnunni fylgir framkvæmdaáætlun til fjögurra ára þar sem fram koma tillögur um skiptingu þeirra fjármuna sem ætlaðir eru í framkvæmdina. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð árlega og tillögur um skiptingu fjár fari inn í fjárlagaferlið líkt og áður hefur verið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta