Skýrsla um ástand friðlýstra svæða kynnt í ríkisstjórn
Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í ríkisstjórn í morgun skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða. Sex svæði eru nú talin í verulegri hættu sem er fækkun um fjögur svæði ef miðað er við sambærilegan lista sem gefinn var út fyrir tveimur árum.
Svæðin sem fjallað er um í skýrslunni eru flokkuð í tvo hópa og lenda á rauðum eða appelsínugulum lista eftir því hversu alvarlegt ástand þeirra er talið. Svæði á rauða listanum metur Umhverfisstofnun undir svo miklu álagi að þar þurfi þegar að bregðast við. Svæði á appelsínugula listanum eru svæði sem stofnunin telur vera undir töluverðu álagi sem fylgjast þurfi grannt með og bregðast við eftir atvikum.
Sex svæði eru nú talin í verulegri hættu en þau eru Friðland að fjallabaki, Geysir, Helgustaðanáma, Reykjanesfólkvangur, Laugarás og verndarsvæði Mývatns og Laxár en tvö síðastnefndu svæðin voru áður á appelsínugulum lista. Árið 2010 voru svokölluð rauð svæði tíu talsins en frá því að fyrri skýrslan kom út hafa fjögur ný svæði, Skútustaðagígar, Skógafoss, Háubakkar og Rauðhólar bæst á appelsínugula listann. Nokkur svæði hafa flust milli flokka og tvö svæði, Dynjandi og Hraunfossar eru ekki lengur á lista yfir svæði í hættu. Staða svæða í skýrslunni er sýnd í töflunni hér fyrir neðan.
Rauð svæði 2010
|
Appelsínugul svæði 2010 |
Rauð svæði 2012
|
Appelsínugul svæði 2012 |
Dyrhólaey | Dynjandi | Friðland að Fjallabaki | Dyrhólaey |
Friðland að Fjallabaki | Eldborg í Bláfjöllum | Geysir | Grábrókargígar |
Geysir | Fossvogsbakkar | Helgustaðanáma | Gullfoss |
Grábrókargígar | Geitland | Reykjanesfólkvangur | Hveravellir |
Gullfoss | Hraunfossar | Laugarás | Surtarbrandsgil |
Helgustaðanáma | Kringilsárrani | Verndarsvæði Mývatns og Laxár | Teigarhorn |
Hveravellir | Laugarás | Eldborg í Bláfjöllum | |
Reykjanesfólkvangur | Verndarsvæði Mývatns og Laxár | Fossvogsbakkar | |
Surtarbrandsgil | Geitland | ||
Teigarhorn | Kringilsárani | ||
Skútustaðagígar | |||
Skógafoss | |||
Háubakkar | |||
Rauðhólar |
Heimild: Ástand friðlýstra svæða, skýrsla Umhverfisstofnunar 2013, bls. 5
Mat sitt byggir Umhverfisstofnun á svokallaðri SVOT greiningu, en hún byggir á styrkleika, veikleika, ógnum og tækifærum viðkomandi svæðis.