Opinn fundur í Grundarfirði um síldardauðann
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, efnir til opins fundar um síldardauðann í Kolgrafafirði á morgun, fimmtudaginn 18. apríl. Fundurinn verður haldinn í Samkomuhúsinu í Grundarfirði og hefst kl. 17.
Talið er að yfir 50 þúsund tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði tveimur viðburðum, um miðjan desember og 1. febrúar. Efni fundarins er orsakir síldardauðans, staða mála og spurningar er varða framtíðina. Fjallað verður um rannsóknir, vöktun, hreinsunaraðgerðir og viðbúnað.
Á fundinn mæta fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúrustofu Vesturlands, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, auk fulltrúa ráðuneytis og heimamanna.