Starfshópur um verndarsvæði í hafi
Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði fyrr í vetur vinnur nú að stefnumótun varðandi verndarsvæði í hafi. Er hópnum ætlað að skila tillögum að hugsanlegum verndarsvæðum og leggja til uppfærða stefnu í málaflokknum nú á þessu ári.
Starfshópurinn vinnur m.a. á grundvelli skýrslu og tillagna um vernd viðkvæmra hafsvæða frá 2005. Í kjölfar þeirra voru m.a. friðuð nokkur svæði kaldsjávarkóralla og hafa þau verið tilkynnt sem verndarsvæði í hafi til OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins, sem heldur skrá yfir slík svæði hjá 13 strandríkjum sem eiga aðild að samningnum. Að auki hefur Ísland sett á þá skrá friðlýstar hverastrýtur í Eyjafirði og í lok árs 2012 einnig friðlýst hafsvæði kringum Eldey og Surtsey. Alls eru nú 9 verndarsvæði við Ísland á skrá OSPAR, af 334 svæðum alls.
Mikil umræða er á alþjóðavettvangi um verndarsvæði í hafi, bæði innan lögsögu ríkja og á alþjóðlegu hafsvæði. Sú umræða er mun skemmra á veg komin en varðandi verndarsvæði á landi, enda náttúrulegar aðstæður aðrar og þekking á lífríki oft minni, en einnig eru ýmis lagaleg álitamál uppi, sérstaklega utan lögsögu ríkja. Verndarsvæði eru ekki endilega alfriðuð gagnvart fiskveiðum eða annarri starfsemi, heldur eru þar í gildi sérstök ákvæði um vernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda, sem ganga lengra en almennar reglur hjá hverju ríki. Miklu skiptir að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í alþjóðlegri umræðu um þessi mál og leggi upp með skýra stefnu varðandi stofnun verndarsvæða innan lögsögu Íslands, en einnig á alþjóðlegum hafsvæðum.
Starfshópurinn er undir formennsku umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en einnig eiga sæti í honum fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun.