Samkomulag ríkis og borgar um endurbætur á aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli
Innanríkisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík skrifuðu í dag undir samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli. Í samkomulaginu felst meðal annars að Isavia taki yfir rekstur og eignarhald á núverandi flugstöð Flugfélags Íslands, að gerð verði viðskiptaáætlun fyrir nýja flugstöð og að fallið verði frá fyrri áformum um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri lýstu báðir yfir ánægju með samkomulagið og sömuleiðis fulltrúar flugrekenda sem voru viðstaddir, þeir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, og Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis.
Talin eru upp í samkomulaginu fjölmörg atriði er varða deiliskipulag á svæðinu og að því verki verði hraðað sem kostur er svo unnt verði að hefja ráðgerðar endurbætur sem fyrst. Norðaustur/suðvestur flugbrautin verði lögð af og landið sem losnar sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð og að flugöryggi við austur/vestur flugbrautina verði bætt meðal annars með því að lækka gróður í Öskjuhlíðinni og að heimiluð verði uppsetning aðflugsljósa fyrir nákvæmnisaðflug vestan við brautarendann. Verði breytt deiliskipulag vegna aðflugsljósa verði auglýst samhliða breytingum vegna flugstöðvar. Þá er gert ráð fyrir að fundin verði lausn vegna aðstöðu fyrir vélar og tæki vegna rekstrar vallarins á athafnasvæði Isavia við austanverðan völlinn.
Þá gerir samkomulagið ráð fyrir því að endurbætt flugstöð tryggi samkeppni í flugstarfsemi og möguleika á að þjónusta fleiri en eitt flugfélag og að hún hýsi framvegis allt áætlunarflug. Einnig er samkomulag um að allri umferð herflugvéla og flugi í þágu hertengdrar starfsemi um Reykjavíkurflugvöll verði hætt nema þegar völlurinn þjónar sem varaflugvöllur og vegna öryggis- og björgunarstarfa.
Fram kemur í samkomulaginu að aðilar eru sammála um að kanna möguleika á hringtengingu strætó um Reykjavíkurflugvöll sem talin er möguleg. Mun útfærsla hennar taka mið af því hvort Reykjavíkurborg hyggst ráðast í fyllingar í Skerjafirði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.
Félagshagfræðileg könnun á innanlandsflugi
Fram kom í máli ráðherra við athöfnina að á vegum innanríkisráðuneytisins er nú hafin úttekt á félagshagfræðilegri þýðingu innanlandsflugsins. Verkefnið er skilgreint í tólf ára samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í júní á síðasta ári. Markmið þess er að fram fari heildstæð félagshagfræðileg greining á mikilvægi áætlunarflugs innanlands á grundvelli markmiða samgönguáætlunar um greiðari samgöngur, hagkvæmni, öryggi, umhverfislega sjálfbærni og jákvæða byggðaþróun. Spurningalistar hafa þegar verið lagðir fyrir farþega í innanlandsflugi og eftir að gögnum hefur verið safnað verður unnið úr þeim og skýrslan kynnt í ágústmánuði.
Framlengdur samningur um stuðning við flug á Norðausturlandi
Þá nefndi ráðherra að ákveðið hefði verið að samningur við Norlandair um flug á Norðlausturlandi verði framlengdur. Félagið sinnir áætlunarflugi milli Akureyrar og Þórshafnar og Akureyrar og Vopnafjarðar auk flugs milli Akureyrar og Grímseyjar. Samningarnir um flugið til Þórshafnar og Vopnafjarðar renna út í árslok en ákveðið hefur verið að framlengja þá um ár. Síðari hluta ársins 2014 verður síðan allt áætlunarflug innanlands sem notið hefur styrkja boðið út að nýju og verður þar tekið mið af niðurstöðum framangreindar könnunar á innanlandsfluginu.
Samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli
Á myndinni að neðan eru frá vinstri Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Jón Gnarr borgarstjóri, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Isavia, og Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.