Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vel sóttur fundur um síldardauða

Frá opnum fundi um síldardauðann.
Frá opnum fundi um síldardauðann.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra fundaði í gær með heimamönnum í Grundarfirði og nágrenni um síldardauðann í Kolgrafafirði ásamt fulltrúum helstu stofnana sem að málinu hafa komið. Fyrir fundinn skoðaði hún aðstæður við bæinn Eiði í Kolgrafafirði og ræddi ástandið við ábúendur þar. Hreinsun á grút og dauðri síld er að mestu lokið í firðinum og var það mál manna á fundinum að hreinsunin hafi borið verulegan árangur.

Talið er að yfir 50 þúsund tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði í tveimur viðburðum, um miðjan desember og 1. febrúar og hefur verið unnið að hreinsun á grút og síld frá því í febrúar. Þær aðgerðir eru nú á lokastigi.

Auk ráðherra voru á fundinum fulltrúar helstu stofnana sem að málinu hafa komið, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar, Náttúrustofu Vesturlands, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Vegagerðarinnar. Þá greindu ábúendur á Eiði í máli og myndum frá sinni upplifun af síldardauðanum og hreinsunaraðgerðum.

Fundurinn var vel sóttur og svöruðu framsögumenn fyrirspurnum fundargesta og tóku þátt í umræðum. Lagði ráðherra áherslu á að komið verði á tengslaneti starfsmanna ráðuneytisins og helstu stofnana ríkisins sem koma að verkinu, auk heimamanna í því skyni að fara yfir alla helstu þætti málsins, s.s. rannsóknir, vöktun, hreinsun, viðbrögð fyrir næsta vetur og önnur mál. Sagði hún mikilvægt að læra af þessum nær fordæmislausa viðburði og bregðast við eftir því sem það væri hægt.

Fjaran skoðuð. Fjaran skoðuð. Fyrir fundinn skoðaði ráðherra aðstæður við bæinn Eiði í Kolgrafafirði og ræddi ástandið við ábúendur þar.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta