Hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu
Innanríkisráðherra hefur ákveðið að hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju verði boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Hönnun verður boðin út sérstaklega og í framhaldi af hönnun skipsins verður smíðin boðin út. Farið verður í opið útboð á EES svæðinu með kröfum á tilboðsgjafa, svo sem um reynslu, getu og tungumálakunnáttu.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og fulltrúar bæjarstjórnar Vestmannaeyja sátu í dag fund þar sem ráðherra kynnti þeim áætlun um hönnun og smíði ferju. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar voru Elliði Vignisson bæjarstjóri, Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar, Páley Borgþórsdóttir, formaður bæjarráðs, og Arnar Sigurmundsson, formaður framkvæmda- og hafnarráðs. Frá innanríkisráðuneytinu sátu fundinn auk ráðherra Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri skrifstofu innviða, Friðfinnur Skaftason, sérfræðingur hjá ráðuneytinu, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar.
Á fundinum settu forráðamenn Vestmannaeyjabæjar fram þrjú áhersluatriði: Hönnun ferjunnar verði boðin út sérstaklega og að ferjan geti siglt á Þorlákshöfn þegar ekki gefur á Landeyjahöfn og að aðbúnaður farþega vegna siglinga til Þorlákshafnar verði viðunandi. Ráðist verði í endurbætur á höfninni meðan ferja er smíðuð og í þriðja lagi að kannað verði rækilega hvort unnt er að fá annað skip en Herjólf til að annast siglingarnar þar til ný ferja kemst í gagnið. Forráðamenn bæjarins þökkuðu ráðherra og fyrir góðan stuðning og forgöngu hans við að koma málinu í þennan farveg.
Innanríkisráðherra tilkynnti að markmiðið væri að smíða ferju sem getur sinnt flutningum farþega, bifreiða og vöru milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á öruggan hátt árið um kring með lágmarksröskun. Samhliða hönnun ferjunnar verður unnið áfram að rannsóknum á höfninni og ráðist í nauðsynlegar endurbætur. Nú væri málið komið af stað og í markvisst ferli
Verkefnisstjórn skipuð.
Skipuð verður verkefnisstjórn sem mun undirbúa útboðið. Í henni munu eiga sæti fulltrúar innanríkisráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar, Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.
Miðað er við að hönnunin verði boðin út í byrjun maí 2013, hún geti hafist í júlí og að henni ljúki í desember 2013. Smíðin yrði boðin út í framhaldi af því og stefnt að því að henni verði lokið síðla árs 2015.
Skipaður verður stýrihópur verkefnisins sem útfæri nánar áfangaskipta tímaáætlun. Verkefnið felst í að láta hanna og gera útboðslýsingu fyrir smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Hönnunina skal miða við heilsárssiglingar á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og skal hönnunin byggjast á fyrirliggjandi kröfulýsingu og taka tillit til sérstakra aðstæðna í og við Landeyjahöfn einkum hvað varðar skrokklag skipsins, stjórnhæfni og djúpristu. Hönnunina skal sannreyna með viðeigandi líkantilraunum. Í verkefninu felst m.a. gerð útboðsgagna í samvinnu við Ríkiskaup, að veita Ríkiskaupum tæknilega aðstoð á útboðs- og samningatímanum og annast samskipti við hönnuði á verktímanum og eftirlit með hönnun og prófunum.
Áfram unnið að rannsóknum
Samhliða hönnun á nýrri Vestmannaeyjaferju verður áfram unnið að rannsóknum á höfninni og ráðist í þær endurbætur sem sýnt er að skili árangri. Greinargerð um höfnina og áreiðanleika samgangnanna er í vinnslu hjá Siglingastofnun.
Ný ferja sem uppfyllir forsendur Siglingastofnunnar til siglinga í Landeyjahöfn, þar sem dýpkað verður með dælubúnaði í hafnamynni samhliða dýpkunarskipi, getur siglt í Landeyjahöfn að jafnaði í um 91% af tímanum.
Mat á frátöfum byggist á hermilíkani sem Siglingastofnun hefur þróað og gefið góða mynd af frátöfum og sandburði. Margt bendir til að með frekari þróun á Landeyjahöfn og dýpkunaraðferðum verði unnt að tryggja að frátafir verða minni en hér er áætlað en þó aldrei minni en veðurforsendur gefa tilefni til.