Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur nefndar um stöðu villtra fugla og villtra spendýra

Nefndin ásamt ráðherra.
Nefndin ásamt ráðherra.

Nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra úttekt sinni ásamt tillögum. Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð löggjöf og stjórnsýsla á þessu sviði taki mið af þremur lykilstoðum, þ.e. vernd, velferð og veiðum villtra dýra.

Nefndinni var ætlað að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu villtra spendýra og fugla á Íslandi og leggja fram tillögur um úrbætur með það að leiðarljósi að uppfylla markmið gildandi laga og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og varða verndun villtra spendýra og fugla og veiðar á þeim. Skýrsla nefndarinnar er yfirgripsmikil og svipar í efnismeðferð til Hvítbókar um löggjöf til verndar náttúru Íslands sem gefin var út 2011 í aðdraganda setningar nýrrar heildarlöggjafar um náttúruvernd.

Sem fyrr segir eru skilgreindar þrjár grunnsstoðir sem lagt er til að löggjöf um villt dýr byggi á, þ.e. vernd, velferð og veiðar. Hver þessara þátta myndi rammgerða undirstöðu laganna sem frekari útfærslur byggi á. Kemur fram að í núverandi löggjöf sé lögð áhersla á veiðar, og hafi almenn vernd og velferðarmál villtra dýra því að nokkru leyti orðið út undan, þó komið sé inn á þessa þætti í villidýralögum, lögum um dýravernd, náttúruvernd eða öðrum lögum.

Í skýrslunni eru mótaðar nokkrar meginreglur sem byggja á meginreglum umhverfisréttarins, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum viðmiðum auk annarra upplýsinga sem nefndin taldi æskilegt að hafa að leiðarljósi. Þessar meginreglur eru:

  • Stuðla skal að því að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum.
  • Tryggja skal vernd villtra dýrastofna, þ.e. að öll villt dýr séu í grunninn friðuð og að litið sé á þau sem skyni gæddar verur, sem koma skuli fram við af virðingu og með velferð þeirra að leiðarljósi.
  • Tryggja skal að ekki sé gengið á búsvæði villtra dýra í þeim mæli að það ógni viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
  • Tryggja skal að villt dýr njóti verndar fyrir hvers konar umsvifum manna eða annarra lífvera á þeirra vegum, sem ógnað gætu viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
  • Tryggja skal að:
  1. Aflétting friðunar og leyfi til veiða byggi á haldbærum upplýsingum um stofnstærð og veiðiþol viðkomandi stofns eða um tjón sem hann kann að valda. Skort á upplýsingum skal túlka villtum dýrum eða náttúru í hag, sbr. varúðarregluna.
  2. Veiðiaðferðir taki mið af velferð og líffræði viðkomandi tegundar, m.t.t. ótta, sársauka og dauðastríðs, með það fyrir augum að lágmarka þessa þætti eins og kostur er.
  3. Velferð og viðhald veiðistofna séu höfð í fyrirrúmi umfram hefðir og sérhagsmuni, enda tryggi það sjálfbæra nýtingu og aðgang komandi kynslóða að þeim.

Þá eru settar fram tillögur varðandi nýjar skilgreiningar á ýmsum hugtökum, markmið nýrra villidýralaga, umsjón málefna villtra dýra ásamt tillögum í tengslum við vernd, velferð, veiðar, rannsóknir, almenningsfræðslu og eftirlit. Í skýrslunni er aukinheldur að finna sérstakan kafla um sjávarspendýr, en í þeim efnum leggur nefndin til algjöra endurskoðun á lagaumhverfi með það fyrir augum að þeim verði tryggð viðeigandi vernd og veiðistjórnun.

Nefndin leggur til töluverðar breytingar er tengjast umsjón málefna villtra dýra þar sem skilvirk og skýr umsjón sé lykilatriði í því að tryggja viðunandi vernd villtra dýra og sjálfbærar nytjar á þeim. Þá leggur nefndin áherslu á að skilgreind verði opinber stofnstjórnunarmarkmið fyrir alla fugla- og spendýrastofna landsins.

Skýrsla nefndarinnar er í lokafrágangi hvað varðar uppsetningu og útlit og verður aðgengileg á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins innan skamms.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta