Jákvæð úttekt Þróunarsamvinnunefndar OECD á þróunarsamvinnu Íslendinga
Þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC) hefur unnið úttekt á þróunarsamvinnu Íslands. Niðurstöður úttektarinnar eru mjög jákvæðar í garð þróunarsamvinnu Íslands og kemur þar fram að hún byggist á traustum grunni, komi vel út í samanburði við nokkur þeirra aðildarríkja þróunarsamvinnunefndarinnar sem þykja standa sig hvað best á þessu sviði. Þá er talið lofsvert að Ísland hafi skýr markmið um að auka framlög til þróunarsamvinnu þrátt fyrir erfiðar efnahagslegar aðstæður.
Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál frá febrúar 2013 er fjallað um gerð útektarinnar. Þar þakkar ráðherra m.a. þessum góða árangri á sviði þróunarsamvinnu breiðri samstöðu á Alþingi um að efla þróunarsamvinnu Íslands.
Úttektin var kynnt á fundi OECD/DAC og af því tilefni lýsti Erik Solheim, formaður nefndarinnar, því yfir að þrátt fyrir efnahagsþrengingar hafi Ísland lagt ríka áherslu á fastmótað skipulag, skýra stefnu og aukin framlög á sviði þróunarsamvinnu og að jákvætt væri að sjá hversu vel hafi til tekist.
Slík úttekt er liður í faglegu aðhaldi á vettvangi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og í henni koma fram gagnlegar ábendingar sem nýttar verða til að gera þróunarsamvinnu Íslands enn árangursríkara.
Ísland varð aðili að DAC hinn 14 mars sl. eins og stefnt hafði verið að samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2011. Þróunarsamvinnunefndin er samstarfsvettvangur OECD ríkja sem veita þróunaraðstoð samkvæmt sameiginlegum viðmiðum um framkvæmd aðstoðar og stuðlar að faglegu aðhaldi. Með aðild Íslands eiga nú 25 ríki af 34 aðildarríkjum OECD sæti í nefndinni.
Úttekt Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC) á þróunarsamvinnu Íslands