Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Rauði krossinn á Íslandi og innanríkisráðuneytið semja um þjónustu við hælisleitendur

Undirritaður var í gær samningur milli Rauða krossins á Íslandi og innanríkisráðuneytisins um aðstoð og þjónustu Rauða krossins við hælisleitendur á Íslandi. Samninginn undirrituðu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á  Íslandi.

Ögmundur Jónasson og Kristján Sturluson skrifuðu í gær undir samning ráðuneytisins og RKÍ um verkefni vegna hælisleitenda.
Ögmundur Jónasson og Kristján Sturluson skrifuðu í gær undir samning ráðuneytisins og RKÍ um verkefni vegna hælisleitenda.

Samkvæmt samningnum mun Rauði krossinn veita aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem óska alþjóðlegrar verndar hér á landi. Felst það meðal annars í hlutlausri og óháðri hagsmunagæslu, reglulegu samráði og samstarfi við stjórnvöld, viðtalstímum, heimsóknarþjónustu, félagsstarfi og fataúthlutun fyrir hælisleitendur, mati á aðbúnaði þeirra og fræðslu og kynningu fyrir stjórnvöld og aðra er málið varðar í samfélaginu. Samningsupphæðin hljóðar upp þrjár milljónir króna og er gildistíminn til næstu áramóta, en samningurinn verður endurskoðaður fyrir þann tíma.

Hælisleitendum hér á landi hefur fjölgað mjög undanfarin misseri. Þannig óskuðu 76 einstaklingar eftir hæli árið 2011 og árið 2012 voru umsóknirnar 115, sem er 66% aukning milli ára. Það sem af er þessu ári hafa borist 81 umsókn um hæli.

Á sama tíma hefur málsmeðferð orðið umsvifameiri og flóknari og því miður hafa stjórnvöld ekki náð að tryggja viðunandi málshraða hælisumsókna. Til að bregðast við þessu samþykkti ríkisstjórnin í mars síðastliðnum tillögu innanríkisráðherra um að efna til tímabundins átaks til að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu og aðbúnað hælisleitenda. Ráðinn var verkefnisstjóri sem hefur yfirumsjón með átakinu og starfsmönnum fjölgað tímabundið hjá innanríkisráðuneytinu og Útlendingastofnun. Liður í átaksverkefninu er að efla og treysta enn frekar samstarf stjórnvalda við Rauða krossinn og er það meðal annars gert með þeim samningi sem undirritaður var í gær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta