Sameiginlegt markaðsstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir
Á fundi ríkisstjórnar í gær var samþykkt að leggja til 15 milljónir í sameiginlegt markaðsstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir með hagsmunaaðilum. Um er að ræða allt að sex mánaða verkefni að fjárhæð 30-35 mkr. og mun Íslandsstofa stýra framkvæmdinni.
Undanfarna mánuði hefur átt sér stað mikil umræða í íslenskum sjávarútvegi um sameiginlegt markaðsstarf í sölu á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum og hafa atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og utanríkisráðherra rætt um nauðsyn þess að koma á slíku samstarfi. Ástæður fyrir því eru margar en nefna má lækkandi verð á fiskafurðum á heimsmarkaði, þörf á heildarsýn í markaðsmálum sjávarútvegsins og aukna samkeppni á fiskmörkuðum, sérstaklega frá Noregi. Norðmenn kynntu nýlega metnaðarfulla áætlun í þessum efnum sem ætlar þeim að verða heimsins fremsta fiskveiðiþjóð, kynna það sérstaklega á sínum markaðssvæðum og hafa til þess mikla fjármuni umleikis.
Áhersla er lögð á að mótuð sé skýr stefna í erlendu markaðsstarfi með það að markmiði að auka áhuga og traust á íslenskum sjávarafurðum. Þetta verði gert með þátttöku hagsmunaaðila og með því að nýta markaðsupplýsingar til að skilgreina hvernig og með hvaða meginskilaboðum beri að kynna íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum.
Við skipulagningu verkefnisins er m.a. horft er til þeirrar góðu reynslu sem hefur verið af verkefninu "Inspired by Iceland". Verkefnið er þó ekki einungis hugsað í markaðslegum tilgangi heldur einnig til að kynna sjálfbærar fiskveiðar Íslendinga sem er mikilvægt atriði þegar kemur að samningum okkar við önnur ríki og ríkjasambönd um fiskveiðar svo sem eins og í makríldeilunni.