Ákvæði um styrk brennisteinsvetnis ekki frestað
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur hafnað beiðni stýrihóps um brennisteinsvetni frá jarðgufuvirkjunum, um sex ára frestun á hertum gildistökuákvæðum í reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Telur ráðuneytið ekki fullreynt hvort einhverjar þeirra leiða sem hafa verið til skoðnar til að draga úr brennisteinsmengun frá virkjununum muni skila árangri fyrir 1. júlí 2014, þegar ákvæðin taka gildi.
Að stýrihópnum standa Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka og Landsvirkjun. Á því tæpa ári, sem liðið eru frá því að erindi hans barst ráðuneytinu, hefur verið til skoðunar hvað hægt er að gera til að draga frekar úr mengun. M.a. hefur verið unnið að nýsköpunarverkefni sem gengur undir heitinu Sulfix en það miðar að því að draga úr útblæstri brennisteinsvetnis með því að dæla því aftur ofan í berglögin. Ráðuneytið beinir því til stýrihópsins að halda áfram þróun Sulfix verkefnisins. Jafnframt er því beint til orkufyrirtækjanna að skoða aðrar leiðir sem eru líklegar til að skila árangri innan þess tíma sem til stefnu er.
Eftir yfirferð ráðuneytisins á málinu telur það ljóst að allflestar jarðvarmavirkjanir hér á landi munu geta staðist þau umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni sem kveðið er á um í umræddri reglugerð, að undanskilinni Hellisheiðarvirkjun, sem á í vandræðum með að uppfylla mörkin fyrir 1. júlí 2014. Ráðuneytið sér því að svo stöddu ekki þörf á því að fresta gildistöku hertra ákvæða reglugerðarinnar um sex ár fyrir allar jarðvarmavirkjanir á landinu. Óski stýrihópurinn að taka málið upp aftur er honum bent á að senda ráðuneytinu beiðni þess efnis ekki síðar en 1. mars 2014 og rökstyðja þá beiðni með skýrslu þar sem gerð er grein fyrir framvindu þeirra verkefna sem líkleg eru til að minnka styrk brennisteinsvetnis í útblæstri frá virkjunum.