Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2013 Utanríkisráðuneytið

Klárum viðræðurnar við ESB!

Könnun Félagsvísindastofnunar í miðri viku sýndi að 52,7 prósent landsmanna vilja ljúka við viðræðurnar um aðild að Evrópusambandinu – og aðeins 30,7 prósent eru mótfallin því. Mikill meirihluti þjóðarinnar vill því fá að sjá samning, og greiða um hann atkvæði. Athygli vekur að meira en þriðjungur þeirra sem í dag telja Íslandi betur borgið utan sambandsins en innan vill samt ljúka viðræðunum. Þessi hópur er greinilega reiðubúinn til að endurmeta afstöðu sína ef það telur samninginn gæta hagsmuna sinna nægilega vel.

Jákvæð þróun
Án efa bíða langflestir eftir því að sjá hver niðurstaðan verður um sjávarútvegskaflann. Úr honum eru fréttirnar góðar og jákvæðar. Okkur hefur tekist vel að afla skilnings gagnvart einstakri sérstöðu Íslands. Það liggur fyrir að reglur Evrópusambandsins tryggja að Íslendingar halda rétti gagnvart fiskistofnum í hafinu. Um leið hefur endurskoðun á  sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem færir meira vald út til svæðanna styrkt kröfu Íslendinga um sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði við Ísland.

Sjálfur er ég ekki í vafa um að margir verða hissa þegar samningum um sjó lýkur og menn sjá niðurstöðuna. Hún gæti breytt afstöðu margra. Í lokaáfanga samninganna er verkefnið ekki síst að draga þennan jákvæða skilning gagnvart sérstöðu Íslands fram við samningaborðið. En til þess þurfa menn að geta lokið samningunum.

Ég lít á afstöðu þeirra, sem eru ekki reiðubúnir til að taka jákvætt í aðild, en vilja eigi að síður halda samningaviðræðunum áfram, sem jákvæða og málefnalega afstöðu. Í henni felst ekki gagnrýni – heldur varfærni. Við eigum að leyfa okkur þann munað að hafa mismunandi afstöðu til aðildar. Það er ekkert að því að deila fast um hana. En besta leiðin til að útkljá þann afstöðumun felst í því að leyfa þjóðinni að kjósa og gera sjálf út um málið.

Góð sátt um málefnin
Samningaviðræðurnar eru nú þegar langt komnar. Íslendingar hafa undirbúið, og afgreitt í samráði við Alþingi, afstöðu Íslands í 29 samningsköflum af þeim 33 sem um þarf að semja. Það er athyglisvert að um afstöðu í þessum 29 samningsköflum ríkir ágætis sátt. Áhyggjur manna snertu mest einn kafla, þar sem fjallað var um innflutning lifandi dýra, en nýlegar yfirlýsingar frá Evrópusambandinu um skilning á kröfu Íslendinga um bann við þeim hafa slegið á þær áhyggjur.

Í dag erum við Íslendingar búnir að hefja samninga á um 4/5 af köflunum 33, og höfum lokið samningum um þriðjung þeirra. Nú þegar eru samningar hafnir um erfiða kafla einsog gjaldeyrismálin, umhverfi og náttúru, og byggðamál. Vinna við samningsafstöðu Íslendinga í erfiðustu köflunum, landbúnaði og sjávarútvegi, er langt komin – og þar sem stuðst er nákvæmlega við leiðbeiningar meirihluta utanríkismálanefndar er ólíklegt að ekki takist góð sátt um afstöðu í þeim köflum líka. Íslendingar kunna svo þjóða best þá list að semja um fisk – og ég óttast ekki að samningamenn okkar komi heim með öngulinn í afturendanum þar fremur en í öðrum samningum.

Sérstaðan viðurkennd
Miklu skiptir, að í umsóknarferlinu hefur Íslendingum tekist mjög vel að afla skilnings á sérstöðu sinni, ekki síst í landbúnaði og sjávarútvegi. Það kom skýrt fram á fundum sem ég átti í þessum mánuði um lykilmál með æðstu stjórnendum í Brussel.

Stækkunarstjórinn, Stefan Fuhle, lýsti þannig skilningi á kröfum Íslendinga um bann við innflutning á lifandi dýrum, og Íslendingar munu senn leggja fram sterka skýrslu erlends sérfræðings henni til stuðnings. Það munaði líka um – ekki síst í ljósi umræðna hér heima – að Ottinger, orkustjóri sambandsins, gaf eftir okkar fund út skýra yfirlýsingu um að Íslendingar myndu halda fullu eignarhaldi og forræði yfir orkulindum.

Vert er að leggja áherslu á, að kostnaðurinn við samningana er vel innan þeirra fjárheimilda sem veittar voru til verksins. Hann nemur nú um 300 milljónum. Kostnaðurinn við ferlið er því að mestu leyti kominn fram. Á móti hafa svo Íslendingar fengið verkefnastyrki sem nema meira en tuttugufaldri þeirri upphæð, eða ríflega sex milljarða. Um styrkina var í upphafi deilt – sbr. orð góðs manns um glerperlur og eldvatn – en nú vildu flestir þá Lilju hafa til sín fengið kveðna.

Margvíslegur ávinningur
Af hverju væri glapræði að slíta samningunum núna? – Vegna þess, að það myndi koma í veg fyrir að Ísland gæti tekið upp evruna næstu 30–40 árin. Aðild að ESB og upptaka evrunnar myndi færa okkur efnahagslegan stöðugleika, Evrópuvexti, minnka verðbólgu og gera okkur kleift að afleggja verðtrygginguna. Um leið sýnir reynsla smáþjóða að aðild fylgja miklar erlendar fjárfestingar sem skapa störf, og auka fjölbreytni í atvinnulífi. Dæmi eru um að erlendar fjárfestingar hafi fast að tvöfaldast.

Aðgangur að 450 milljóna manna heimamarkaði skapar grundvöll fyrir stórsókn íslenskrar framleiðslu í fiskvinnslu og landbúnaði. Evrópa kallar á hágæðamatvörur. Ísland framleiðir þær – en við þurfum afnám tolla til að geta rutt þeim braut inn á markaði. Aðild að byggðastefnu ESB myndi jafnframt gjörbreyta möguleikum landsbyggðarinnar til að þróast, og skjóta nýjum stoðum undir jaðarbyggðir í hættu.

Tryggjum framhaldið
Þeir sem vilja tryggja framhald viðræðna og leyfa þjóðinni að kjósa um samning tryggja það best með því að styðja við þann flokk sem hafði frumkvæði að umsókninni, og hefur stýrt henni af öryggi og festu.

Sterk Samfylking er besta tryggingin fyrir því að þjóðin fái sjálf að kjósa um aðildarsamning.


Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 26. - 28. apríl 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta