Skrifað undir þjónustusamning Isavia og innanríkisráðuneytis
Skrifað hefur verið undir þjónustusamning milli innanríkisráðuneytisins og Isavia ohf. vegna starfsemi Isavia á þessu ári. Samninginn undirrituðu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, í ráðuneytinu í morgun.
Samningsupphæðin hljóðar uppá tæpa 1,8 milljarða króna. Alls fara 1.486 milljónir króna í rekstur flugvalla og 300 milljónir króna fara í ýmsar viðhalds- og stofnframkvæmdir. Samningurinn nær til verkefna á sviði flugleiðsöguþjónustu, bæði á alþjóðlegu flugsvæði og í innanlandsloftrými, rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvalla og lendingarstaða, útgáfu flugmálahandbókar, ráðgjöf og þátttöku í ýmsum verkefnum. Fjallað er nánar í samningnum um einstaka þjónustuþætti, m.a. um hvers konar þjónusta er veitt á flugvöllum landsins og sérákvæði er um þjónustuna á Keflavíkurflugvelli.
Í viðauka samningsins eru síðan skilgreindar viðhalds- og stofnframkvæmdir sem ráðist verður í á árinu. Meðal þeirra má nefna malbikun flugbrautarinnar á Gjögri og viðhaldsframkvæmdir, einkum á malbiki og tækjabúnaði víða um landið.