Hoppa yfir valmynd
14. maí 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur um verndun hella afhentar ráðherra

Frá afhendingu skýrslunnar.
Frá afhendingu skýrslunnar.

Samráðsnefnd um málefni er varða verndun hella skilaði Svandísi Svavarsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu sinni í síðasta mánuði. Í kjölfarið var skv. tillögu nefndarinnar sérstök ráðgjafanefnd um verndun hella skipuð.

Megintillaga samráðsnefndarinnar er að hraunhellar í landinu verði friðlýstir með heildarfriðun en að þeir verði jafnframt greindir í þrjá flokka eftir stigi friðunar. Flokkarnir þrír eru hellar sem yrðu lokaðir allri almennri umferð, sýningarhellar sem yrðu opnir ferðafólki í fylgd leiðsögumanna og opnir hellar sem yrðu öllum opnir án eftirlits. Umferð, umgengni og rannsóknir um hellana yrðu háðar reglum sem settar yrðu fyrir hvern helli.

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að ákvæði er varða verndun hella verði styrkt í náttúruverndarlögum og að komið verði á gagnagrunni um hella og fræðsla til almennings aukin. Sömuleiðis er lagt til að starfsmenn verndarsvæða og aðrir leiðsögumenn um hella hljóti sérstaka fræðslu um umferð í hella. Telur nefndin brýnt að meta hvort nauðsynlegt sé að banna opinbera birtingu á hnitsetningu fyrir alla hella.

Þá lagði nefndin til að komið yrði á fót ráðgjafanefnd um hella sem yrði ráðgefandi um framkvæmdir í og við hella og skráningu þeirra, ásamt því að útbúa umgengnisreglur um hella.

Var ráðgjafanefndin skipuð í framhaldinu en í henni sitja: 

  • Herdís Schopka, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
  • Árni B. Stefánsson, varamaður formanns,
  • Guðni Gunnarsson, tilnefndur af Hellarannsóknafélagi Íslands,
  • Hjalti J. Guðmundsson, tilnefndur af Umhverfisstofnun
  • Kristján Jónasson, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta