Hoppa yfir valmynd
14. maí 2013 Utanríkisráðuneytið

Tölt - óður til íslenska hestsins

Tölt

Í tilefni af Heimsmeistaramóti íslenska hestins sem efnt verður til í Berlín í byrjun ágúst verður sýningin  TÖLT - óður til íslenska hestins formlega opnuð í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín á miðvikudagskvöld. Á þýsku nefnist sýningin TÖLT - Inspiration - Islandpferd. Hátt í 200 manns hafa boðað komu sína á opnunina.

Sýningin er undirbúin í samráði við Landsamband hestamannafélaga á Íslandi og skipuleggjendur Heimsmeistaramótins í Berlín. Hún er kostuð af íslenskum stjórnvöldum og studd af  Íslandsstofu og Wow Air.  Sýningarstjóri er Ragna Fróðadóttir hönnuður, og taka á annan tug virtra íslenskra listamanna og hönnuða þátt í henni.  

Í tengslum við sýninguna verður efnt til menningardagskrár til heiðurs íslenska hestinum í Berlín. Á opnuninni mun reiðmaður vindanna, sjálfur Helgi Björnsson, flytja nokkur lög með "Berlínarbandinu"  sínu.  Þann  23. maí verður kvikmyndakvöld, þann 26. maí "pop up" kaffihús þar sem boðið verður upp á kleinur, en þar mun sýningarstjóri  efna til gjörnings þar sem hestaskúlptúr í fullri stærð verður vafinn íslenskri ull.  Þann 31. maí verður efnt til glæsilegrar dagskrár í samstarfi við 12 Tóna, en þar mun Steindór Andersen kveða rímur við undirleik Hilmars Arnar Hilmarssonar og strengjakvartetts listamanna í Berlín auk þess sem brugðið verður upp myndum af íslenska hestinum eins og þær birtast í Íslendingasögunum. Þann 13. júní verða sumartónleikar með íslenskum óperusöngvurum sem búsettir eru í Berlín, en þeir flytja ljóð um íslenska hestinn við undirleik Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara.  Börn verða boðin sérstaklega velkomin á  sýninguna og í hverri viku verður efnt til leiðsagnar og listasmiðju með þeim. Lokamótttaka sýningarinnar er fyrirhuguð þann 26. júní innan ramma opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Þýskalands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta