Hoppa yfir valmynd
15. maí 2013 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Dómur EFTA-dómstólsins um neytendalánatilskipun

Í morgun féll dómur í samningsbrotamáli sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) höfðaði gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum. Málið rekur rætur sínar til þess að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánssamninga fyrir neytendur var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009 (II. neytendalánatilskipunin).

Á 140. þingi veturinn 2011/2012 lagði efnahags- og viðskiptaráðherra fram frumvarp til nýrra laga um neytendalán sem ætlað var að innleiða II. neytendalánatilskipunina innan tilgreinds tímafrests en sökum anna í þinginu undir lok þess tókst ekki að ljúka afgreiðslu frumvarpsins.

Þann 4. júlí 2012 sendi ESA íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit þar þess var óskað að Ísland skyldi á grundvelli skuldbindinga sinna skv. EES-samningnum innleiða II. neytendalánatilskipunina í íslenskan rétt innan tveggja mánaða. Í framhaldinu höfðaði ESA samningsbrotamál í nóvember 2012 með vísan til 2. mgr. 31. gr. samningsins um eftirlitsstofnunina og dómstólinn. Í greininni kemur fram að telji ESA að EFTA-ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og ríki breyti ekki í samræmi við rökstutt álit ESA innan tilgreinds frests geti stofnunin vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

ESA-dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu í morgun að Íslandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 27. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendalán og 7. gr. EES-samningsins þar sem tilskipunin var ekki innleidd í íslenskan rétt innan tilgreindra tímamarka.

Niðurstaða dómsins felur aðeins í sér viðurkenningu þess að II. neytendalánatilskipunin hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt innan tilskilinna tímamarka, en þann 18. febrúar sl. var frumvarp til nýrra laga um neytendalán samþykkt sem lög nr. 33/2013 og mun II. neytendalánatilskipunin verða að fullu innleidd í íslenskan rétt frá 1. september nk. við gildistöku laganna. 

Samkvæmt forsetaúrskurði sem öðlaðist gildi 25. apríl eru öll neytendamál nú á ábyrgðarsviði innanríkisráðuneytisins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun hins vegar svara fyrir um mál sem risið hafa fyrir þann tíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta