Norðurskautsríkin undirrita samning um varnir gegn olíumengun
Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins fór fram í dag í Kiruna í Norður-Svíþjóð. Á fundinum var undirritaður samningur um gagnkvæma aðstoð ríkjanna vegna olíumengunar í hafi. Þá var samþykkt sameiginleg yfirlýsing um framtíðaráherslur ráðsins í tilefni þess að nú hafa öll ríkin átta gegnt formennsku frá stofnun þess 1996. Þar segir að gríðarmikil tækifæri felist í efnahagslegri þróun norðurslóða og samstarf á því sviði verði forgangsmál í störfum ráðsins. Styrkja þurfi samstarf norðurskautsríkjanna enn frekar á sviði umhverfismála og borgaralegs öryggis. Loftslagsbreytingar séu mikið áhyggjuefni og ríkin muni vinna saman að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Á fundinum var samþykkt að veita Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Síngapúr og Suður-Kóreu áheyrnaraðild að ráðinu. Tekin var ákvörðun um að ESB fái áheyrnaraðild þegar niðurstaða hefur fengist varðandi útfærslu á undanþágum fyrir frumbyggja á banni á sölu á selaafurðum til ESB á grundvelli bréfs forseta framkvæmdastjórnar ESB þar að lútandi. Þá kynntu vísindahópar ráðsins helstu niðurstöður og tillögur síðustu tveggja ára m.a. viðamikla úttekt á súrnun hafsins, stöðu líffræðilegs fjölbreytileika á norðurheimskautssvæðinu og úttekt á samgönguinnviðum á svæðinu.
Í ávarpi Íslands var m.a. fagnað þeim árangri sem Norðurskautsráðið hefur áorkað frá stofnun þess. Ráðið hefur aukið traust og gagnkvæman skilning meðal norðurskautsríkjanna og meðal íbúa svæðisins. Það hefur eflst á sviði vísinda, sem og varðandi stefnumarkandi umfjöllun um norðurslóðamálefni. Þar ber hæst tvo samninga sem gerðir hafa verið, annars vegar um leit og björgun og hins vegar um viðbrögð gegn olíumengun. Þá var mikilvægi Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna áréttað.
Stofnun fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins var samþykkt formlega á fundinum, en framkvæmdastjóri hennar er Magnús Jóhannesson.
Í fjarveru utanríkisráðherra fór Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins, fyrir sendinefnd Íslands á fundinum.
Ávarp Íslands
Kiruna yfirlýsingin
Vision for the Arctic
Heimasíða Norðurskautsráðsins