Heimsókn vinnuhóps mannréttindaráðs SÞ um afnám alls lagalegs og annars misréttis gegn konum
Vinnuhópur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um afnám alls lagalegs og annars misréttis gegn konum heimsótti Ísland dagana 16. til 23. maí. Hlutverk hópsins er að eiga skoðanaskipti við stjórnvöld og hagsmunaaðila, sem og að leggja mat á góðar aðferðir til að koma í veg fyrir lagalega mismunun gegn konum. Ein af megináherslum hópsins hérlendis var að kanna efnahags- og félagslega mismunun gegn konum í kjölfar efnahagskreppu. Í heimsókninni ræddi hópurinn við fulltrúa ráðuneyta, félagasamtaka, stéttarfélaga, blaðakonur, þingkonur og fjölmarga aðra hagsmunaaðila.
Vinnuhópurinn kynnti í gær frumniðurstöður sínar á stöðu mála á Íslandi, þar sem meðal annars er fjallað um almenna þróun jafnréttismála á Íslandi, stefnu og ýmsar aðgerðir stjórnvalda á því sviði. Nefndin fjallar einnig um launamisrétti, kynbundið ofbeldi og stöðu kvenna af erlendum uppruna.
Vinnuhópurinn mun vinna áfram að mati á stöðu þessara mála á Íslandi á komandi mánuðum og mun kynna lokaniðurstöðu sína fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júní 2014.