Sigurður Ingi Jóhannsson tekur við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á ríkisráðsfundi í gær, fimmtudaginn 23. maí 2013. Fráfarandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, afhenti honum lyklana að ráðuneytinu í dag.
Sigurður Ingi var kosinn alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi 25. apríl 2009.
Hann er fæddur 20. apríl 1962. Eiginkona hans er Ingibjörg Elsa Ingjaldsdóttir framkvæmdastjóri og alls eiga þau fimm börn. Sigurður Ingi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1982 og embættisprófi í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn (KVL).
Sigurður Ingi hefur m.a. starfað sem bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi á árunum 1987-1994 og var settur héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi 1992-1994. Þá var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. 1996-2009 og oddviti Hrunamannahrepps frá 2002 allt þar til hann settist á þing sumarið 2009.
Sigurður Ingi tók í gær einnig við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks