Alþjóðasamningur um vopnaviðskipti undirritaður hjá SÞ
Í dag undirritaði 61 ríki, Ísland þeirra á meðal, alþjóðasamning um vopnaviðskipti og fór undirritunin fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Samningurinn var samþykktur á allsherjarþingi SÞ í apríl síðastliðnum. Samningurinn er fyrsti alþjóðasamningurinn sem hefur það að markmiði að koma lögum yfir viðskipti með hefðbundin vopn og er gerð hans stórt skref í baráttunni gegn ólögmætum vopnaviðskiptum. Samningurinn er mikilvægur fyrir alþjóðleg öryggismál og í baráttunni gegn brotum á mannúðarlögum og mannréttindum. Vonir standa til að með honum verði hægt að stemma stigu við vopnadreifingu, m.a. til átakasvæða, hryðjuverkahópa og skipulagðrar glæpastarfsemi.
Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Gréta Gunnarsdóttir, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands.
Ísland er í hópi þeirra ríkja sem beittu sér fyrir gerð samningsins frá upphafi. Fulltrúar Íslands tóku virkan þátt í samningaviðræðunum og var Ísland í hópi þeirra ríkja sem kölluðu eftir víðtækum samningi sem grundvallast meðal annars á alþjóðlegum mannúðarlögum. Ísland var í fararbroddi þeirra ríkja sem lögðu sérstaka áherslu á að í samningnum yrði ákvæði um kynbundið ofbeldi og er þetta í fyrsta sinn sem alþjóðasamningur nær til þess. Ísland átti þar góða samvinnu við hin Norðurlöndin og frjáls félagasamtök.
Samningurinn tekur gildi 90 dögum eftir að 50 ríki hafa fullgilt hann.