Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um vernd skipa og hafnaraðstöðu til umsagnar

Innanríkisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 474/2007, um vernd skipa og hafnaraðstöðu, með síðari breytingum. Umsagnarfrestur er til og með 19. júní næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Í drögum að reglugerð þessari er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 725/2004 um að efla vernd skipa og hafnaraðstöðu. Reglugerð (EB) nr. 725/2004 var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 474/2007 um vernd skipa og hafnaraðstöðu.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 og sprengjuárásarinnar á franska olíuskipið Limburg, voru alþjóðagerningar um siglingaöryggi teknir til endurskoðunar. Var viðeigandi ákvæðum alþjóðasamningsins um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) breytt og samþykktur var alþjóðakóði um vernd skipa og hafnaraðstöðu (ISPS-kóðinn). Markmið ISPS-kóðans er að koma á laggirnar samræmdu alþjóðakerfi til að koma í veg fyrir hryðjuverk og annars konar öryggisógnir. Kóðinn gerir þá kröfu að skip og hafnir hafi yfir að ráða þjálfuðu starfsfólki til að sinna öryggisgæslu og tengdum aðgerðum.

Hluti af því eftirliti sem fram fer á grundvelli ISPS-kóðans er að sannprófa að um borð í skipum sé gilt alþjóðlegt siglingaverndarskírteini (international ship security certificate) eða ef svo á við alþjóðlegt bráðabirgðasiglingaverndarskírteini (interim international ship security certificate). Í 1. og 2. viðbæti við A-hluta II. viðauka reglugerðar (EB) nr. 725/2004 er að finna ákvæði um hvaða upplýsingar framangreind skírteini eiga að geyma. Meðal þeirra upplýsinga er nafn skips, einkennisnúmer eða bókstafir, heimahöfn, IMO-númer og nafn og aðsetur  útgerðarfélags.

Þann 20. maí 2005 samþykkti Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) ályktun nr. 196(80) sem breytti ISPS-kóðanum og var auðkennisnúmerum fyrirtækja bætt við þær upplýsingar sem eiga að koma fram í fyrrgreindum skírteinum. Til að samræma reglugerð (EB) nr. 725/2004 við ályktun IMO samþykkti framkvæmdastjórnin ákvörðun 2009/83/EB sem breytir 1. og 2. viðbæti við A-hluta II. viðauka reglugerðar (EB) nr. 725/2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta