Útgáfa vegabréfsáritana hafin í sendiráði Íslands í Moskvu
Sendiráð Íslands í Moskvu hóf í dag útgáfu vegabréfsáritana til Íslands, en áður sinnti sendiráð Danmerkur í Moskvu þessu verkefni. Móttaka umsókna verður áfram í þjónustumiðstöðum fyrirtækisins VFS Global en nú einnig í sendiráði Íslands í Moskvu. VFS Global sérhæfir sig í þjónustu við umsækjendur um vegabréfsáritanir og sendiráð sem þær veita, fyrirtækið rekur 875 þjónustumiðstöðvar í 87 löndum. Fyrst um sinn verður tekið á móti umsóknum í þjónustumiðstöðvum í Pétursborg og Moskvu.
Ísland hóf þátttöku í Schengen samstarfinu á árinu 2001 og hóf útgáfu áritana í sendiráði Íslands í Peking árið 2007. Útgáfa vegabréfsáritana til Íslands er á forræði útlendingastofnunar og móttaka umsókna erlendis, annarsstaðar en í Moskvu og Peking, er hjá erlendum sendiráðum eða ræðisskrifstofum sem Ísland hefur gert samning við.
Frekari upplýsingar um móttöku umsókna um vegabréfsáritun í Rússlandi (á ensku)