Afhenti forseta Palestínu trúnaðarbréf
María Erla Marelsdóttir, sendiherra, afhenti 29. maí sl. Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Palestínu með aðsetur í Reykjavík.
Á fundi sendiherrans með forsetanum var fjallað um tvíhliða samskipti ríkjanna og þakkaði Abbas Íslandi fyrir að hafa verið meðflutningsríki og stutt ályktun, sem samþykkt var á Allsherjaþingi SÞ 29. nóvember sl., og veitir Palestínu stöðu aheyrnarríkis hjá SÞ. Forsetinn sagði þennan stuðning miklu skipta fyrir Palestínumenn. Þá var fjallað um stöðu mála í landinu og þróun friðarferlisins.
María Erla átti ennfremur fundi með Dr. Riad Malki, utanríkisráðherra Palestínu og Mohammad Abu Ramadan ráðherra skipulagsmála.
Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu 15. desember 2011 í kjölfar þingsályktunar þess efnis sem var samþykkt á Alþingi 29. nóvember sama ár.