Hoppa yfir valmynd
5. júní 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra heimsótti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Jón Aðalsteinn Jóhannsson heimilislæknir og Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Jón Aðalsteinn Jóhannsson heimilislæknir og Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra heimsótti höfuðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag þar sem hann ræddi við stjórnendur og kynnti sér starfsemina. Um 550 manns starfa hjá heilsugæslunni sem þjónar um 180.000 manns. Árlegur rekstrarkostnaður er um 5,3 milljarðar króna á ári.

Þetta er fyrsta stofnunin sem Kristján Þór heimsækir í embætti heilbrigðisráðherra en hann mun á næstu vikum heimsækja heilbrigðisstofnanir um allt land. 

Heimsóknin hófst á fundi ráðherra með framkvæmdastjórn stofnunarinnar en í henni eiga sæti Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri, Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri, Þórunn Ólafsdóttir hjúkrunarforstjóri, Kristján G. Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, og Jónas Guðmundsson, framkvæmdastjóri sviðs fjármála og rekstrar.

Kristján Þór Júlíusson, Þórunn Ólafsdóttir og Matthea Guðný ÓlafsdóttirSvanhvít kynnti ráðherra ýmsa lykilupplýsingar um starfsemina og meginverkefni hennar. Fimmtán heilsugæslustöðvar heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem þjónustar íbúa Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.  Að auki er starfrækt á vegum heilsugæslunnar Þroska- og heðgunarstöð sem veitir þjónustu vegna barna að 12 ára aldri sem glíma við vandamál tengd þroska, hegðun eða líðan. Þroska- og hegðunarstöðin sinnir börnum víðsvegar af landinu. Sama máli gegnir um þverfaglegt geðteymi sem starfar á vegum heilsugæslunnar og sinnir fólki með geðræna erfiðleika og aðstandendum þeirra með ráðgjöf, stuðning og endurhæfingu. 

Kristján Þór, heilbrigðisráðherra, spurði margs um þjónustuna, mönnun, rekstur, stöðu og horfur. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur glímt við uppsafnaðan halla í rekstri en síðastliðin þrjú ár hefur tekist að halda rekstrinum innan fjárheimilda og allt bendir til þess að svo verði einnig á þessu ári. Þrátt fyrir stíft aðhald í rekstri á liðnum árum hefur tekist vel að verja alla grunnþætti lögbundinnar þjónustu heilsugæslunnar að sögn stjórnenda en biðtími eftir þjónustu hefur í sumum tilvikum lengst. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er líka kennslustofnun

Starfsþjálfun og kennsla heilbrigðisstétta er liður í starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ár hvert eru um 60 læknanemar, kandidatar og sérnámslæknar hjá stofnuninni til lengri eða skemmri tíma. Nú stefnir í að þeir verði mun fleiri, eða allt að 100 á þessu ári. Þetta eru ýmist nemar við læknadeild Háskóla Íslands, læknar á kandidatsári og sérnámslæknar. Kristján Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs segir afar mikilvægt að fjölga í stéttinni og fá ungt fólk til starfa, því meðalaldur heilsugæslulækna sé orðinn hár.

Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri segir að árlega séu um 60-70 nemar í heilsugæsluhjúkrun við stofnunina og starfi á heilsugæslustöðvunum í þrisvar sinnum þrjár vikur hver, auk vikulangrar kynningar í heimahjúkrun. Hópurinn er óvenju stór núna og segir Þórunn stefna í 100 starfsnema í ár.

Kristján Þór Júlíusson, Matthea Guðný Ólafsdóttir, Jón Aðalsteinn Jóhannsson, Lúðvik Ólafsson, Þórunn Óllafsdóttir og Svanhvít Jakbosdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta