Samstarfssamningur við Mannréttindaskrifstofu Íslands undirritaður
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Bjarni Jónsson formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands undirrituðu í dag samstarfssamning til þriggja ára. Samningurinn er sá þriðji sem ráðuneytið gerir við skrifstofuna og gildir til ársloka 2015. Samningurinn gerir ráð fyrir 3,5 milljón kr. framlagi árlega.
Samstarf utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofunnar hefur verið farsælt allt frá árinu 2008 þegar fyrsti samningurinn var gerður. Sérfræðingar skrifstofunnar hafa veitt utanríkisráðuneytinu aðstoð og stuðning við málefnavinnu sem varðar alþjóðleg mannréttindamál. Sem dæmi má nefna ráðgjöf vegna fyrirtöku Íslands á vettvangi jafningjarýni SÞ á stöðu mannréttindamála.
Við undirritunina sagði utanríkisráðherra ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á að alþjóðalög og mannréttindasamningar séu virt. Með nýjum samningi er samstarfið styrkt og skilgreint enn frekar en m.a. er gert ráð fyrir að Mannréttindaskrifstofan kynni árlega málefni sem varðar alþjóðleg mannréttindamál.
Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð 1994. Að henni standa 14 óháð félagasamtök og stofnanir sem öll láta sig mannréttindi varða á einn eða annan hátt. Markmið hennar er að vinna að framgangi mannréttinda, m.a. með öflun upplýsinga um mannréttindamál innanlands og veita almenningi upplýsingar, stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu og vitundarvakningu um mannréttindi á Íslandi.