Drög að reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til umsagnar
Innanríkisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat. Umsagnarfrestur er til 8. júlí næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].
Ný lög um neytendalán, nr. 33/2013, voru samþykkt af Alþingi á síðasta löggjafarþingi. Taka þau gildi 1. september næstkomandi og frá sama tíma falla niður eldri lög um sama efni, nr. 121/1994.
Lögin um neytendalán byggjast á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB, um lánasamninga fyrir neytendur. Tilgangurinn með setningu tilskipunarinnar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána.
Meðal nýmæla í lögunum er að lánveitendum er nú skylt að framkvæma lánshæfismat, og eftir atvikum greiðslumat, vegna allra lánveitinga til neytenda sem falla undir gildissvið laganna.
Greiðslumat hefur verið framkvæmt við lánveitingar þar sem sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna eða lánsveð eru til tryggingar frá gildistöku samkomulags um notkun ábyrgða árið 1998 og síðar eftir samkomulagi frá 2001. Að samkomulaginu stóðu stjórnvöld, Neytendasamtökin, Samtök íslenskra sparisjóða og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (nú Samtök fjármálafyrirtækja). Með gildistöku laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, voru sambærileg ákvæði um greiðslumat fest í lög. Auk þess hafa flestir aðilar á fasteignalánamarkaði sett eigin reglur um að umsækjendur lána standist greiðslumat áður en til lánveitingar kemur.
Lánshæfismat er í skilningi laganna víðtækara hugtak en greiðslumat og getur tekið til huglægra þátta auk hinna hlutlæga, svo sem skilvísi og greiðslusögu. Má orða það sem svo að með lánshæfismati sé leitast við að staðreyna greiðsluviljann en greiðslugetunaeð greiðslumati. Skal það byggt á viðskiptasögu milli lánveitanda og lántaka og/eða upplýsingum úr gagnagrunni um fjárhagsmálefni og lánstraust.
Í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 33/2013 er ráðherra gert að setja reglugerð um nánari framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats, þ.m.t. um hvaða gagna skuli líta til, skráningu og uppfærslu gagna, endurgreiðslutímabil, neysluviðmið og undanþágur og um það fjalla drög þessi að reglugerð.
Drögin voru unnin á vegum nefndar um neytendalán. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirlitsins, Neytendasamtakanna og Neytendastofu.