Hoppa yfir valmynd
7. júní 2013 Dómsmálaráðuneytið

Skorað á innanríkisráðherra að taka mál Martins til efnislegrar meðferðar

Samtökin ‘78 afhentu innanríkisráðherra í dag áskorun um að endurskoðuð verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins um synjun efnislegrar meðferðar vegna umsóknar Martins, hælisleitanda frá Nígeríu, um hæli á Íslandi. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra upplýsti er hún tók við áskoruninni að ráðuneytið hefði orðið við beiðni Martins um frestun á flutningi hans úr landi þar til niðurstaða í dómsmáli annars hælisleitanda frá Nígeríu liggur fyrir.

Innanríkisráðherra tók í dag við áskorun Samtakanna '78.
Innanríkisráðherra tók í dag við áskorun Samtakanna '78.

Hanna Birna þakkaði Samtökunum '78 baráttu þeirra fyrir aðstæðum samkynhneigðra og kvaðst taka við þessari áskorun um leið og hún upplýsti að lögfræðingur Martins hefði verið upplýstur um að flutningi Martins úr landi yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í dómsmáli annars manns frá Nígeríu.

Innanríkisráðherra tók í dag við áskorun Samtakanna '78.

Samtökin ‘78 stóðu síðastliðinn laugardag fyrir þjóðfundi hinsegin fólks og þar skrifaði á annað hundrað manns undir áskorunina til innanríkisráðherra. Í áskoruninni segir meðal annars að Martin hafi sótt um hæli á Íslandi á grundvelli kynhneigðar sinnar eftir að hafa flúið frá Nígeríu og Ítalíu vegna ofbeldis og niðurlægingar sem hann hafi mátt sæta. Segir einnig að aðstæður hinsegin fólks í Nígeríu séu afar slæmar og fari versnandi. Íslendingar séu stoltir af því að vera í fararbroddi í réttindamálum hinsegin fólks og hafa Samtökin '78 lýst sig reiðubúin að styðja Martin meðan máls hans sé til meðferðar hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta