Innanríkisráðherra skipar rannsóknarnefnd samgönguslysa
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur tekið til starfa samkvæmt lögum nr. 18/2013 sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor. Með lögunum sem tóku gildi 1. júní er starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa, rannsóknarnefndar sjóslysa og rannsóknarnefndar umferðarslysa sameinuð og falla lög um nefndirnar þrjár þar með úr gildi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur nú skipað í nefndina og er Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugstjóri og vélaverkfræðingur, formaður nefndarinnar.
Aðrir nefndarmenn eru:
- Ásdís J. Rafnar hæstaréttarlögmaður,
- Bryndís Torfadóttir flugstjóri,
- Brynjólfur Mogensen læknir,
- Gestur Gunnarsson flugvirki,
- Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna,
- Ingi Tryggvason lögfræðingur.
Varamenn eru:
- Haraldur Sigþórsson verkfræðingur,
- Hjörtur Emilsson skipatæknifræðingur,
- Hörður Vignir Arilíusson flugumferðarstjóri,
- Inga Hersteinsdóttir verkfræðingur,
- Pálmi Kr. Jónsson, vélfræðingur.
- Tómas Davíð Þorsteinsson framkvæmdastjóri.
Markmið laganna um rannsóknarnefnd samgönguslysa er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa en ekki að skipta sök eða ábyrgð segir í fyrstu grein frumvarpsins. Er hún sambærileg grein sama efnis og í eldri lögum um rannsóknir flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa nema orðalagi er breytt þar sem hún nær yfir öll slys í samgöngum.