Ásdís Hlökk Theodórsdóttir skipuð í embætti forstjóra Skipulagsstofnunar
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur í embætti forstjóra Skipulagsstofnunar til fimm ára. Ásdís Hlökk hefur frá árinu 2007 starfað við Háskólann í Reykjavík sem aðjúnkt og námsbrautarstjóri meistaranáms á sviði umferðar og skipulags.
Ásdís Hlökk lauk meistaragráðu í skipulagsfræðum frá háskólanum í Reading á Englandi. Hún hefur einnig lagt stund á doktorsnám í skipulagsfræðum við Kungl. Tekniska Högskolan í Stokkhólmi meðfram störfum.
Hún hefur fjölbreytta stjórnunarreynslu en fyrir utan störf hennar við Háskólann í Reykjavík var hún settur skipulagsstjóri á Skipulagsstofnun á árunum 2004 – 2005 og aðstoðarskipulagsstjóri frá árinu 1998. Þá starfaði hún hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta á árunum 2005 – 2008.
Ásdís Hlökk er gift Bolla Þórssyni lækni og eiga þau tvo syni.