Rjúpu fjölgar verulega
Rjúpu hefur fjölgað um 47% milli áranna 2012 og 2013. Þetta eru niðurstöður rjúpnatalninga Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Rjúpnatalningar fara fram árlega og eru unnar í samvinnu við náttúrustofur landsins, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn. Um 60 manns tóku þátt í talningunum í ár á 42 talningasvæðum um land allt.
Alls voru taldir 1.165 karrar sem er um 2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu. Greinileg aukning var á 31 talningasvæði (74%), kyrrstaða var á 7 svæðum (17%) og fækkun var á 4 svæðum (9%). Samandregið fyrir öll talningasvæði á landinu var aukningin að meðaltali um 47% 2012 til 2013.
Fjölgun rjúpunnar í ár kemur á óvart því fækkunarskeiði sem hófst á vestanverðu landinu 2009-2010 og á norðan- og austanverðu landinu 2010-2011 er lokið, a.m.k. í bili, eftir aðeins 2-3 ár. Fyrri fækkunarskeið hafa varað í 5-7 ár og samkvæmt því hefði mátt búast við næsta lágmarki á árunum 2015-2018.
Íslenski rjúpnastofninn sveiflast mikið af náttúrulegum orsökum. Náttúruleg lengd stofnsveiflu íslensku rjúpunnar er um 11 ár. Stofninn var í hámarki á Norðausturlandi vorið 1998 og svo 2010 eða tólf árum síðar. Áhrif veiðibanns 2003 og 2004 flækja þessa mynd en friðunin dró verulega úr afföllum rjúpna og stofninn óx í kjölfarið. Margt af því sem nú er að gerast minnir á það sem gerðist í kjölfar friðunaráranna 2003 og 2004.
Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á ástæðum fjölgunar mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2012-2013 og veiði 2012.
Frétt Náttúrufræðistofnunar