Hoppa yfir valmynd
13. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstöður framtíðarþings um farsæla öldrun

Fólksfjöldi
Fólksfjöldi

Farsæl öldrun felst meðal annars í því að aldraðir njóti virðingar sem þegnar samfélagsins og séu ekki skilgreindir út frá elli, hrumleika og vangetu. Mikilvægt er að aldraðir haldi reisn sinni, virðing sé borin fyrir skoðunum og gjörðum þeirra og þeir spurðir álits. Þetta segir í niðurstöðum þings um farsæla öldrun sem haldið var 7. mars síðastliðinn. 

Framtíðarþing um farsæla öldrun var samstarfsverkefni Öldrunarráðs Íslands, Landssambands eldri borgara, Öldrunarfræðafélags Íslands, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga, Félags sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu og Iðjuþjálfafélags Íslands.

Aðdragandi fundarins var Evrópuár um virkni aldraðra og samstöðu kynslóðanna árið 2012 hjá Evrópusambandinu en í kjölfarið var ákveðið að efna til þingsins með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  • Að vekja jákvæða athygli á öldruðum, stöðu þeirra og hvernig þeir líta sín mál til framtíðar.
  • Að skapa umræðu um öldrunarmál, væntingar og viðhorf til efri áranna.
  • Að skapa vettvang fyrir þá sem koma að öldrunarmálum á Íslandi og koma af stað heilbrigðri og skynsamlegri umræðu um þessa kynslóð.
  • Að skapa leiðbeiningar til stjórnvalda.

Á annað hundrað manns tóku þátt í þinginu. Unnið var í 8–9 manna hópum með sérþjálfuðum stjórnanda sem tryggði að allir fengju jöfn tækifæri til að tjá sig þannig að öll sjónarmið kæmust að. 

Umræður voru líflegar þar sem glímt var við eftirtaldar spurningar:

  • Hvað er það besta við að eldast?
  • Hvaða væntingar hefur samfélagið til aldraðra? / Hvaða væntingar hafa aldraðir til samfélagsins?
  • Hvað er farsæl öldrun?
  • Hvernig stuðlum við að farsælli öldrun?

Samantekt með niðurstöðum þingsins

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta