Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra heimsótti höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag þar sem hann fundaði með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra bandalagsins.
Á fundinum ræddi utanríkisráðherra stefnu og áherslur ríkisstjórnarinnar í utanríkis- og varnarmálum og lagði áherslu á að aðildin að Atlantshafsbandalaginu sé meginstoð í vörnum Íslands. Ráðherra undirstrikaði hversu brýnt það er að viðhalda sterkum utanríkistengslum ríkjanna við vestan- og austanvert Norður-Atlantshaf með virku og öflugu öryggis- og varnarsamstarfi innan bandalagsins.
Utanríkisráðherra fagnaði vilja bandalagsríkja til þátttöku í loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, en næstu vikur munu ítalskar flugsveitir sinna slíkri gæslu. Þá ræddi ráðherra fyrirhugaða þátttöku Finnlands og Svíþjóðar í loftrýmiseftirliti á Íslandi árið 2014 undir handleiðslu Noregs. Ráðherra sagði norræna samvinnu vera hornstein í utanríkisstefnu Íslands og að þátttaka Finna og Svía væri sögulegt skref í samstarfi Norðurlandanna sem rekur upphaf sitt til tillagna Thorvald Stoltenberg árið 2009.
Framtíðaráskoranir bandalagsins voru einnig ræddar og hvernig aðildarríkin geti með hagkvæmum hætti viðhaldið og styrkt getu sína og viðbúnað þegar efnahagsþrengingar steðja að. Netógnir eru meðal þeirra áskorana sem bandalagsríkin munu fjalla um í auknum mæli og fagnaði framkvæmdastjórinn ákvörðun Íslands um þátttöku í starfsemi netöryggisseturs Atlantshafsbandalagsins í Eistlandi.
Utanríkisáðherra lagði ríka áherslu á öryggishorfur og viðbragðsgetu á norðurslóðum. Rætt var um áframhaldandi aðkomu bandalagsins að uppbyggingu í Afganistan þegar núverandi aðgerð þess líkur í lok árs 2014. Ítrekaði utanríkisráðherra vilja Íslands til þátttöku í því starfi í góðri samvinnu við önnur bandalagsríki. Þá áréttaði ráðherra mikilvægi jafnréttismála og sagði brýnt að ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi sé framfylgt í störfum bandalagsins, þar á meðal í Afganistan.
Utanríkisráðherra þakkaði framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir góðan stuðning og velvild í garð Íslands undanfarin ár og bauð honum að heimsækja Ísland við fyrsta tækifæri.