Hoppa yfir valmynd
16. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fagnar umræðu við Afríkuríki um réttindi samkynhneigðra

Frá fundi norrænna og afrískra utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti um helgina árlegan samráðsfund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Afríkuríkja sem haldinn var í bænum Hämeenlinna í Finnlandi. Ellefu Afríkuríki taka þátt í samráðinu; Benín, Botsvana, Gana, Lesótó, Malí, Mósambík, Nígeríu, Sambíu, Senegal, Suður-Afríka og Tansanía. 

Umfjöllunarefni fundarins voru norræna velferðarmódelið á tímum efnahagsþrenginga, leiðir til að tryggja hagvöxt með jöfnuð að leiðarljósi og hvernig stuðla megi að friðarhorfum þar sem ófriður ríkir í Afríku. Norrænt samstarf er hornsteinn utanríkisstefnu Íslands og sagði utanríkisráðherra afar ánægjulegt að fyrsti fundur sinn í hópi norrænnu ráðherranna hafi verið með fulltrúum Afríkuríkja. Þrátt fyrir margar áskoranir berist nú góðar fregnir frá Afríku. Efnahagsleg og félagsleg þróun, lýðræði og mannréttindi hafi styrkst á síðustu árum og ný tækifæri til samstarfs milli Norðurlanda og ríkja álfunnar fari vaxandi. 

Í máli sínu lagði utanríkisráðherra meðal annars áherslu á hversu brýnt er að skapa hagvöxt á nýjan leik og forðast mannauðsflótta í efnahagsþrengingum og sagði hann íslensk stjórnvöld bregðist nú við slíkum áskorunum í upphafi nýs kjörtímabils. Ráðherra sagði jákvæða efnahagsþróun og bætt lífskjör í Afríkuríkjum vera mikið fagnaðarefni og að Ísland láti ekki sitt eftir liggja í baráttunni við fátækt og ójöfnuð á alþjóðavísu. Á fundinum fóru fram umræður um mannréttindamál og kynjajafnrétti og sagði ráðherra sérstaklega gagnlegt að umræða um réttindi samkynhneigðra hafi verið opin og hreinskiptin. Áhersla Norðurlandanna á réttindi hinsegin fólks, opna umræðu, skilning og umburðarlyndi hafi komist skilmerkilega til skila.           

Þetta er tólfti samráðsfundurinn af þessum toga en sá fyrsti var haldinn árið 2001 að frumkvæði Önnu Lindh, þáverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar. Tilgangur fundanna er að skapa vettvang til að ræða með óformlegum hætti utanríkispólitísk málefni, áskoranir á sviði stjórnmálanna og eiga skoðanaskipti um álitamál sem eru efst á baugi á alþjóðavettvangi hverju sinni. Fundirnir eru haldnir til skiptis í einu Norðurlandanna og í Afríkuriki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta