Ávarp forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Austurvelli 17. júní 2013
Talað orð gildir
Góðir landsmenn, gleðilega hátíð!
„Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand,“ orti Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, sem bar skáldanafnið Hulda, í tilefni af stofnun lýðveldisins árið 1944.
Þetta ættjarðarljóð sem við þekkjum svo vel er samofið sögu okkar allt frá lýðveldisstofnun. Ljóðið fjallar um sjálfstæðið, fegurð landsins, norðurljósin, sem laða nú að erlenda ferðamenn, friðsældina og um íslensku þjóðina sem segir í ljóði Huldu að sé grandvör, farsæl og fróð.
Saga skáldkonunnar ber íslenskri menningu gott vitni og minnir okkur á hve stolt við megum vera af sögu okkar. Hún er saga konu sem ólst upp í Þingeyjarsýslu seint á 19. öld, þar sem hún naut fyrst einkakennslu í foreldrahúsum við góðar aðstæður og hafði aðgang að bókakosti Bókafélags Þingeyinga.
Það er ákaflega merkilegt hvað Íslendingar, þrátt fyrir misjafnar aðstæður, lögðu mikla áherslu á sögu sína og bókmenntir og hafa þannig viðhaldið tungumálinu og menningu þjóðarinnar. Þessa sáust m.a. skýr merki í hópi Vesturfaranna, en þar var eftir því tekið að meðal þeirra fjölmörgu þjóðarbrota sem fluttust til Norður-Ameríku skáru Íslendingar sig úr hvað varðaði almenna lestrarkunnáttu og áherslu á kennslu.
Mikilvægi menntunar fyrir okkar fámennu þjóð verður seint ofmetið. Þekking er og verður undirstaða framfara.
Íslendingar hafa upplifað miklar framfarir frá lýðveldisstofnun, framfarir sem þjóðin hefur unnið að í sameiningu, framfarir sem byggjast ekki síst á þekkingu, bjartsýni og því að þjóðin hafði til að bera þann kjark sem þurfti til að ráðast í að byggja upp samfélagið til lengri tíma.
Á þessum tímamótum stöndum við frammi fyrir bæði ógnum og óþrjótandi tækifærum. Óhjákvæmilegt er að ytri skilyrði, efnahagsástand og alþjóðaumhverfi hafi áhrif á afkomu okkar. Við búum við einstakar auðlindir og legu landsins sem mikil tækifæri felast í. En dýrmætastur er þó mannauðurinn, sem býr meðal þjóðarinnar sjálfrar.
Hugvitið er óendanleg uppspretta sem tengist öllum atvinnugreinum, menningu og listum. Mörg íslensk fyrirtæki hafa þróað einstaka vöru og þjónustu sem seld er víða um heim og afar ánægjulegt er að fylgjast með sprotafyrirtækjum komast á legg og vekja verðskuldaða athygli á aðþjóðlegum vettvangi.
Til að við getum virkjað hugvitið og þekkinguna þarf að huga að uppbyggingu menntakerfisins. Þar er sérstaklega mikilvægt að eiga samráð við foreldra, kennara og aðila vinnumarkaðarins um þróun og eflingu menntakerfisins hér á landi með hagsmuni þjóðarinnar allrar og framtíð hennar að leiðarljósi.
Við þurfum að gæta að samheldninni í samfélaginu og þar er almenn menntun mikilvæg. Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land. En það er ekki sjálfgefið að svo verði um aldur og ævi. Þess vegna þurfum við að gæta þess vel að hér verði ekki til tvær eða fleiri þjóðir í sama landi.
Í því sambandi koma í hugann skilin milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Ýmsar vísbendingar eru um að þau séu að dýpka og þar verður að sporna við fótum með því að stuðla að sambærilegum lífskjörum, lífsgæðum og þjónustu hvar sem er á landinu. Við eigum að leitast við að skipuleggja opinbera þjónustu þannig að hún standi öllum landsmönnum til boða. Þar hljóta mál er varða líf og heilsu og öryggi að vera í forgangi.
Samheldni íslensku þjóðarinnar kemur vel í ljós þegar á reynir og margt er til mikillar fyrirmyndar í samfélagi okkar og vekur eftirtekt í öðrum löndum. Fjölmargir vinna óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu okkar allra, svo sem í björgunarsveitum landsins, sem ég fullyrði að séu nánast einstakar á heimsvísu.
Vegna sögu þjóðarinnar þolum við illa órétt. Sigurður Nordal skrifar í bók sinni Íslenzk menning: „Í gamalli frakkneskri heimild er sagt, að einu sinni hafi sendimaður verið gerður á fund víkinga, er lágu við land þar syðra með mikinn flota. Hann spurði um höfðingja liðsins. Honum var svarað: „Vér erum allir jafnir.“
Íslendingar, afkomendur þessara víkinga, hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í Icesave deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.
Íslendingar tóku afdráttarlaust þá afstöðu, að ekki ætti að leggja skuldir gjaldþrota banka á herðar almennings og létu ekki ógnanir úr ýmsum áttum slá sig út af laginu. Fyrir vikið lítur fólk víða um Evrópu á Ísland sem fyrirmynd í baráttunni við afleiðingar efnahagsþrenginganna sem margar Evrópuþjóðir takast nú á við.
Það er fylgst með því sem við gerum hér og við munum leitast við að vera góð fyrirmynd.
Við Íslendingar viljum taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi og vinna með þjóðum um allan heim, miðla af reynslu okkar, þekkingu og styrkleikum en jafnframt læra af öðrum og njóta styrkleika þeirra.
Við munum hins vegar ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og minnt er á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins.
Það var sjálfstraust íslensku þjóðarinnar sem skóp velferð hennar.
Jón Sigurðsson, Fjölnismenn og aðrir forvígismenn sjálfstæðisbaráttunnar vísuðu til sögunnar til að sýna Íslendingum að þeir ættu að vera stoltir, þeir hefðu ástæðu til að trúa á sjálfa sig. Þeir vissu að forsenda þess að ná árangri væri að trúa því að það væri hægt. Síðan þá hafa Íslendingar náð langt með því að trúa á sjálfa sig. Framfarasaga Íslands mun halda áfram ef við missum ekki trúna á okkur sjálf.
Á undanförnum árum hafa hins vegar heyrst raddir sem telja óviðeigandi að gera mikið úr styrkleikum Íslands og vilja jafnvel gera lítið úr sögunni og afrekum fortíðar. Leiddar eru að því líkur að allt sem gerðist hafi verið nær óhjákvæmilegt. Of mikið hafi verið gert úr afrekum og of lítil áhersla lögð á það sem miður hafi farið.
Þessu hefur svo jafnvel verið fylgt eftir með því að draga gildi fullveldisins í efa.
Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum.
Það er ekki hægt að segja, auðvitað styð ég fullveldi Íslands en...heimurinn er orðinn svo flókinn fyrir litla þjóð, en milliríkjaviðskipti eru orðin svo mikil, en ríkjabandalög eru orðin svo öflug...Hvað þá að bæta því við að hugsanlega getum við ekki stjórnað okkur sjálf. Ef til vill sé best að flytja inn aga erlends valds.
Allt eru þetta atriði sem Íslendingar þekktu þegar þeir börðust fyrir sjálfstæði. Munurinn er þó sá að þá voru aðstæður á allan hátt erfiðari en nú.
Á 19. öld, þegar örfá ríki réðu nánast veröldinni allri, trúði 50.000 manna þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi því að hún ætti að vera sjálfstæð og njóta sama réttar og milljónaþjóðirnar, nýlendu- og herveldin sem réðu heiminum.
Þá sannfæringu megum við aldrei missa.
Að undanförnu hefur þó jafnvel orðið vart viðkvæmni fyrir því að talað sé um að hlúa að íslenskri þjóðmenningu. Þótt slík viðhorf séu ekki einkennandi fyrir Íslendinga hlýtur að vera áhyggjuefni að jafnvel svo verðmætur og mikilvægur hlutur sem sameiginleg saga og menning þjóðarinnar skuli hafður að skotspæni.
Þeir sem þannig tala gætu lært mikið af Vestur-Íslendingum. Þeir efast ekki um gildi íslenskrar þjóðmenningar. Þótt þúsundir kílómetra, meira en heil öld og margar kynslóðir skilji þá frá ættjörðinni sækja Vestur-Íslendingar sér bæði gleði og styrk í menningu og sögu forfeðranna og bera í brjósti fölskvalausa ást til Íslands.
Stolt af eigin uppruna er mikilvægt, það að þekkja gildi eigin menningar er forsenda þess að menn geti til fulls metið menningu annarra þjóða og borið tilhlýðilega virðingu fyrir henni og síðast en ekki síst staðið styrkum fótum á alþjóðavettvangi.
Það má aldrei henda Íslendinga að þeir efist um gildi sitt og getu sem sjálfstæð þjóð.
Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944, eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja, en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.
Það eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu. Flestir þeirra sem opnir eru fyrir aðild að ESB eru um leið afdráttarlausir um mikilvægi fullveldisins. Virða þarf afstöðu þeirra sem velta því fyrir sér hvort aðild að sambandinu myndi styrkja stöðu Íslands. Eitt geta þó Íslendingar sjálfsagt verið sammála um. Það er að nú þurfi Evrópusambandið að sanna sig gagnvart Íslandi.
ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo í blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.
Í ljósi mikillar umræðu um áhrif Evrópusambandsaðildar á fiskveiðar hljóta Íslendingar líka að líta til þess hvort Evrópusambandið muni sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar okkar í eigin lögsögu. Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu.
Loks hlýtur ESB að vilja sanna sig gagnvart eigin þegnum, ekki hvað síst í Grikklandi og öðrum löndum sem gengið hafa í gegnum þrengingar að undanförnu. Sanna að hagsmunir almennings verði látnir ráða för við úrlausn á vanda evrusvæðisins.
Vonandi getum við orðið öðrum fyrirmynd með því að takast á við sameiginleg úrlausnarefni sem sameinuð þjóð. En hvað er það sem gerir okkur að þjóð annað en það, að við byggjum saman eyju nokkra í Norður-Atlantshafi? Og hvert er framlag okkar til heimsmenningarinnar?
Sigurður Nordal skrifar rétt fyrir lýðveldisstofnun: „Sé nú hugsað um skerf Íslendinga til heimsmenningarinnar, er aðrar þjóðir eigi að virða, verður einsætt, hvað sitja skuli í fyrirrúmi. Í efnalegri og verklegri menningu, tækni og iðnum, jafnvel í öllum sjónlistum, hefur þeim lengst af verið ábóta vant. Hins vegar hafa þeir í bókmenntum og orðsins listum varðveitt og skapað varanleg verðmæti.“
Íslensk tunga og orðsins list er líklega mikilvægasta arfleifð okkar. Þess vegna ber okkur skylda til að styðja við íslenskuna.
„Innst í þínum eigin barmi, eins í gleði og eins í harmi, ymur Íslands lag“ kvað Grímur Thomsen.
Við höfum skapað okkur fjölskrúðuga nútímamenningu og enda þótt í henni blandist til góðs áhrif og bragur ýmissa heimshorna byggir menning okkar í dag enn að stórum hluta á tungumálinu. Hvort sem þjóðin í aldanna rás skrýddist rósum eða þyrnum gleymdum við aldrei að færa í orð allan okkar hag og hugsun. Tungumálið er okkar varanlegi efniviður sem enn geymir sjóð minninganna, sigra okkar og sorgir, vonir okkar og drauma.
Frá því Sigurður Nordal ritaði orð sín um íslenska menningu hefur mikið vatn runnið til sjávar. Skerfur Íslendinga til heimsmenningarinnar hefur aukist og orðið fjölbreyttari á undangengnum áratugum. Hvort sem er í þekkingu, menningu, tækni, iðnum eða listum hafa Íslendingar markað spor um víða veröld.
Á undanförnum árum hefur vitund um sérstöðu íslenskrar náttúru á heimsvísu aukist. Vaxandi fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim ber þessu glöggt vitni. Við eigum að taka þeim opnum örmum, ekki einvörðungu vegna þess að þeir færi okkur gjaldeyristekjur, heldur vegna þess að gestrisni er snar þáttur í þjóðmenningu okkar. Ferðalangar sem snúa heim ánægðir eru einnig besta landkynningin.
En um leið erum við komin að einu stærsta viðfangsefni samtímans, hvernig varðveitum við sem best hina ægifögru náttúru okkar án þess þó að hefta um of möguleika okkar á að nýta náttúruauðlindir? Hér verður að fara varlega og freista þess að ná sem víðtækastri sátt um það jafnvægi sem ríkja þarf.
Góðir Íslendingar.
Í dag minnumst við þess að lýðveldi var stofnað á Íslandi árið 1944. Þessi dagur, sem einnig er afmælisdagur Jóns Sigurðssonar, er mikilvægur hluti þjóðmenningar okkar. Á þessum degi minnumst við í sameiningu þeirra sem fyrr á öldum börðust fyrir frelsi landsins og framförum þjóðarinnar. Við minnumst þess einnig að frelsi og lýðræði eru enn ekki sjálfsögð gæði fyrir milljónir manna úti í hinum stóra heimi.
Á hverjum degi vinna Íslendingar afrek, stór og smá. Námsmenn, sem nú hafa verið að útskrifast, bændur sem margir upplifðu óvenju erfiðan vetur, sjómenn sem nýta mikilvæga auðlind, fólk sem rekur og vinnur í fjölbreyttum fyrirtækjum um land allt, heilbrigðisstarfsfólk og löggæslufólk sem hlúir að heilsu okkar og öryggi, kennarar og sérmenntað starfsfólk skólanna, sem sinnir menntun og uppeldi barna okkar, og starfsfólk fyrirtækja og stofnana sem veitir okkur þjónustu frá degi til dags af natni og alúð.
Ykkur öllum, og þjóðinni allri, vill ég færa þakkir fyrir framlag ykkar. Það er mikils metið. Samfélag er samvinnuverkefni, þar sem öll störf eiga að vera mikils metin og allir þegnar þess eiga að búa við jafnan rétt og aðstöðu. Ísland er svo ríkt af tækifærum, auðlindum og mannauði að hér eiga allir að geta búið við velferð.
Nú tekur við sumarið og lengstur sólargangur, tími gróanda og góðra stunda í hversdagslífi okkar. Ég óska þess að landsmenn allir njóti sumardaganna við leik og störf.
Framundan eru viðamikil viðfangsefni af ýmsum toga sem við verðum að takast á við sem einn maður. Það er von mín og trú að okkur takist í samvinnu að stíga markviss og mikilvæg skref til framfara og þar með velferðar í þágu allra íbúa landsins.
Megi íslensku þjóðinni farnast vel um alla framtíð. „Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls - við ysta haf.“
Gleðilega hátíð landsmenn allir.