Kvenréttindadagur haldinn hátíðlegur á Hallveigarstöðum
Kvenréttindadagurinn 19. júní var haldinn hátíðlegur á fundi Kvenréttindafélagsins og Kvenfélagasambands Íslands á Hallveigarstöðum í gær. Fyrir 98 árum, 19. júní árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Rétturinn var takmarkaður og bundinn við konur sem orðnar voru 40 ára eða eldri en fullan rétt til jafns við karla fengu íslenskar konur árið 1920.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði fundinn og lagði í ræðu sinni áherslu á að jafnrétti kynja er ekki einungis hagsmunamál kvenna heldur samfélagsins alls: „Svo mikið er víst að staða kvenna og réttindi í samanburði við karla er enn áhygguefni, því hún er langt frá því að vera jöfn. Það er vissulega ekki sama hvar í heiminum við erum stödd og líklega er staða kvenna hvergi betri en á Norðurlöndunum. Samt vantar upp á að fullu jafnrétti sé náð milli kynjanna í orði og á borði, þótt jafnrétti ríki að lögum.“ Eygló sagði verk að vinna hér á landi vegna kynbundins launamunar, jafnt hjá hinum opinbera og á almennum vinnumarkaði. Hún gerði einnig að umtalsefni kynskiptan vinnumarkað, viðhorf og gildismat á störfum kynjanna og nauðsyn þess að vinna gegn áhrifum staðalmynda á náms- og starfsval kynjanna til að draga úr kynskiptingu vinnumarkaðarins: „Ég tel þó ekki síður mikilvægt að vinna gegn því skakka gildismati á verðmæti starfa sem enn virðist ráðandi í samfélaginu.
Það má lengi ræða það sem betur má fara í málum sem varða jafnrétti kynjanna, en við skulum líka leyfa okkur að gleðjast yfir því sem vel hefur gengið - sem vissulega er margt í okkar góða landi. Við stöndum í fremstu röð ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum – en við verðum líka að leggja metnað okkar í að halda góðri stöðu og bæta hana enn frekar“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Á fundinum tóku einnig til máls Una María Óskarsdóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands, Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, Þórhildur Þorleifsdóttir, formaður Jafnréttisráðs, auk Ísoldar Uggadóttur og Hrannar Kristinsdóttur sem ávörpuðu fundinn fyrir hönd WIFT, félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.