Utanríkisráðherra fundar með Evrópumálaráðherra Breta
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fund með David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands. Á fundinum gerði utanríkisráðherra grein fyrir þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og í hverju það fælist.
Evrópumálaráðherrann fór sérstaklega yfir umræðuna sem fer fram í Bretlandi um tengsl Bretlands og ESB til lengri tíma og gerði grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem eru uppi af hálfu ríkisstjórnar Bretlands. Bretland hefur lagt sérstaka áherslu á að ákveðnar breytingar eigi sér stað á ESB svo það megi betur ná grundvallarmarkmiðum sínum, ekki síst í því skyni að auka samkeppnishæfni.
Ráðherrarnir ræddu um komandi fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna, auk þess að fjalla um tvíhliða samstarf ríkjanna eins og á sviði orkumála.
Ráðherrarnir ræddu makríldeiluna þar sem utanríkisráðherra gerði grein fyrir sjónarmiðum Íslendinga í málinu með sérstakri áherslu á vilja Íslands til að halda samningaviðræðum áfram þegar í stað. Lagði hann áherslu á að mögulegar refsiaðgerðir ESB gagnvart Íslandi myndu einungis gera það enn erfiðara en ella að ná samningum í deilunni.
Að lokum ræddu ráðherrarnir öryggismál og samstarf ríkjanna á því sviði. Var sérstaklega vikið að samstarfi innan NATO í því sambandi þar sem utanríkisráðherra ítrekaði samstarfsvilja ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO.