Hoppa yfir valmynd
24. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Ísland kjörið í stjórn FAO 2014-2017

Sigurgeir Þorgeirsson, formaður íslensku sendinefndarinnar.

Ísland var á föstudag kjörið til setu í stjórn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm (FAO) fyrir árin 2014 – 2017. Norðurlöndin studdu Ísland til setu í stjórn FAO sem í eiga sæti 49 ríki en 10 sæti hafa fallið í hlut Evrópuríkjahópsins. Meginmarkmið FAO er að styrkja fæðuöryggi í heiminum og berjast gegn hungri í samræmi við fyrsta þúsaldarmarkmið SÞ. Störf FAO varða hagsmuni Íslands miklu, meðal annars þar sem stofnunin er alheimsvettvangur fyrir alþjóðasamstarf í sjávarútvegsmálum.

Ísland var eitt af stofnríkjum FAO árið 1945. Starf íslenskra stjórnvalda innan FAO er í samræmi við Þróunarsamvinnuáætlun íslenskra stjórnvalda, þar sem sjálfbær nýting auðlinda og jafnrétti eru áhersluefni. FAO hefur sóst eftir samstarfi við Íslendinga vegna þekkingar þeirra í sjávarútvegi og á síðustu misserum hefur einnig vaknað áhugi á samstarfi vegna nýtingar jarðvarma í þágu fæðuöryggis, á sviði landgræðslumála og í jafnréttismálum.

FAO tengir saman margvíslega þætti í þróunar- og þekkingarsamstarfi. Auk sjávarútvegsmála má nefna landbúnað og ræktun, viðbrögð við loftslagsbreytingum, baráttuna gegn jarðvegseyðingu, ræktun skóga, þörfina á auknum fjárfestingum í matvælaframleiðslu og orkunýtingu, t. d. jarðvarmaorku, og tæknimiðlun í þágu fæðuframleiðslu. Þá beinir stofnunin  í auknum mæli sjónum að jafnrétti kynjanna og þýðingu þess fyrir fæðuöryggi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta